Innlent

Rænu­laus maður á al­manna­færi reyndist ferða­maður í sól­baði

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sum verkefni lögreglunnar í dag voru í óvenjulegri kantinum.
Sum verkefni lögreglunnar í dag voru í óvenjulegri kantinum. Vísir/Vilhelm

Lögreglu var í dag tilkynnt um mann sem var sagður liggja rænulaus á almannafæri í Reykjavík. Sá reyndist vera erlendur ferðamaður að sólbaða sig í góða veðrinu. 

Þetta kemur fram í fréttaskeyti lögreglunnar. Lögreglustöð 1, sem nær yfir vestur-, austur- og miðbæ auk Seltjarnarness var að auki tilkynnt um innbrot á veitingastað, þar sem ýmsum verðmætum hafði verið stolið. Málið er í rannsókn.

Á sömu lögreglustöð var innhringjandi í 112 kærður fyrir að blekkja viðbragðsaðila með tilkynningu sinni, sem var brugðist við af bæði lögreglu og sjúkraliði og reyndist vera uppspuni. Þá var ökumaður kærður fyrir að aka um á negldum hjólbörðum. 

Hestur spókaði sig á Reykjanesbraut

Á lögreglustöð 2, sem nær yfir Hafnarfjörð og Garðabæ, flúði hestur út af afgirtu hestasvæði og spókaði sig meðal annars um á Reykjanesbraut með tilheyrandi óþægindum fyrir þá sem óku þar um. Vanur hestamaður hafði komið dýrinu í taum áður en lögreglu bar að garði. Eigandinn gaf sig svo fram.

Á sömu stöð var ökumaður kærður fyrir að aka án gildra ökuréttinda og annar handtekinn grunaður um ölvunarakstur. Sá reyndist einnig vera sviptur ökurétti fyrir sömu sakir en var látinn laus að blóðsýnatöku lokinni.

Tvær tilkynningar um innbrot bárust lögreglustöð 3, sem nær yfir Kópavog og Breiðholt, eitt á dvalarheimili og annað í bifreið. Málin eru í rannsókn. 

Á lögreglustöð 4, sem nær yfir efri byggðir Reykjavíkur og Mosfellsbæ, handlaði lögregla falsað reiðufé. Málið er í rannsókn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×