Tónabíó var reist í Skipholti árið 1962 og kvikmyndir sýndar þar allt til ársins 1990 þegar Stórstúka Íslands keypti húsið og hóf að halda þar bingó. Nafni hússins var þá breytt í Vinabær og lifði bingóið þar góðu lífi þar til árið 2022 þegar húsið var selt.
Í gær opnaði Reykjavík Brewery bruggstofu þar en félagið er með brugghús í viðbyggingu hússins. Opnunin á sér langan aðdraganda.
„Staðurinn hefur verið tilbúinn að miklu leyti síðan síðasta sumar. Við vorum að vonast til þess að fá öll leyfi og allt slíkt í nóvember en það er búið að taka síðan átta mánuði frá þeim tíma að klára síðasta leyfismálið,“ segir Sigurður Páll Snorrason, eigandi Reykjavík Brewery.

Þannig það er væntanlega mikill léttir að vera loksins búinn að opna?
„Já, það er það. En maður var samt í óvissu með þetta alveg fram á síðasta dag.“
Hægt er að velja úr 22 bjórum á krana og fleirum í dós, þar á meðal bingóbjór.
„Bjórinn er gerður til heiðurs þess að hér var bingóhöll. Við erum í samstarfi við frábæran náunga sem heitir Anton Illugason. Hann er grafískur hönnuður og hann kom með þessa hugmynd að gera bingódós sem er bæði innblásin af loftinu hér en dósin sem slík er líka bingóspjald. Það eru tvö þúsund mismunandi dósir í hverju upplagi svo það er hægt að spila bingó á sjálfa dósina,“ segir Sigurður.

Og í gamla bingó- og bíósalnum verður horft aftur til fortíðar. Það er ekki búið að opna hann er Sigurður vonast til þess að það gerist í haust.
„Ætli við séum ekki bara að fara aftur í upprunann. Fá smá skemmtilega blöndu af tónlist, bíó, bingó og öðru. Öllu mögulegu,“ segir Sigurður.
