Innlent

Sleppur við að taka af­stöðu til vantrauststillögunnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Teitur Björn verður frá þingstörfum næstu daga á meðan hann jafnar sig eftir skurðaðgerð. Á morgun verður vantrauststillaga Miðflokksmanna á hendur matvælaráðherra borin fram.
Teitur Björn verður frá þingstörfum næstu daga á meðan hann jafnar sig eftir skurðaðgerð. Á morgun verður vantrauststillaga Miðflokksmanna á hendur matvælaráðherra borin fram. Vísir/Vilhelm

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verður ekki í þingsal á morgun þegar vantrauststillaga Miðflokksins á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra verður borin fram.

Teitur segist á Facebook-síðu sinni vera að jafna sig eftir skurðaðgerð sem hann þurfti að undirgangast. Teitur lýsir því í færslu sinni að brjósklos í mjóbaki hafi verið myndað og greint í mars. Aðgerðin hafi síðan verið framkvæmd í gær. Af þessum sökum verður hann frá þingstörfum í einhverja daga.

Teitur Björn er í hópi þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa farið mikinn í gagnrýni á störf matvælaráðherra Vinstri grænna, bæði þegar Svandís Svavarsdóttir fór fyrir ráðuneytinu og einnig nú þegar Bjarkey hefur tekið við og snýr gagnrýnin að embættisfærslum í tengslum við hvalveiðar.

Í ljósi þessa hafa margir beðið eftir að fá að vita hver afstaða þingmannsins til vantrauststillögunnar yrði en nú er ljóst að Teitur mun ekki þurfa að greiða atkvæði í málinu enda fyrsta mál á dagskrá að ná bata eftir aðgerðina. Fréttastofa reyndi án árangurs að ná tali af Teiti Birni til að fá að forvitnast um hver afstaða hans til vantrauststillögunnar væri.


Tengdar fréttir

„Það er þetta viðvarandi ólögmæti“

Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna fylkja sér um vantrauststillögu á hendur matvælaráðherra. Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir stjórnsýslu hvalveiðimálsins, allt frá því að Svandís Svavarsdóttir tók ákvarðanir í málinu sem matvælaráðherra, hafa verið óboðlega.

Vonast til að afgreiða hvalveiðileyfi eins hratt og mögulegt er

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra vonast til þess að afgreiða umsóknir um leyfi til langreyða og hrefnu eins hratt og hún mögulega getur. Enginn ákveðinn málsmeðferðartími sé í lögum um hvalveiðar og hún hafi ákveðið að gefa sér tíma til að fara vel yfir málið þar sem engin launung sé um það að miklar og skiptar skoðanir séu á hvalveiðum.

Efast um viðbrögð frá ráðherrum í ljósi „sjálfsmorðsmissjóns“ VG

Lögmaður landeiganda í Ísafjarðardjúpi, sem barist hefur gegn sjókvíaeldi á svæðinu, skorar á ríkisstjórn að grípa til aðgerða vegna leyfisveitingar Matvælastofnunar til Arnarlax. Það sé til marks um slæma stjórnsýslu að stofnunin veiti fyrirtækinu rekstrarleyfi til fiskeldis í Djúpinu þrátt fyrir mótmæli Samgöngustofu, Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×