Innlent

„Sorg­legt að þurfa að rífa þetta hús“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulagssviðs Grindavíkurbæjar, gerir ráð fyrir að undirbúningur taki einhverjar vikur áður en framkvæmdir við niðurrif hefjast.
Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulagssviðs Grindavíkurbæjar, gerir ráð fyrir að undirbúningur taki einhverjar vikur áður en framkvæmdir við niðurrif hefjast. Vísir/Arnar/Elín

Grindvíkingar syrgja nýlegt íþróttahús bæjarins sem þarf að rífa en segja það einnig nauðsynlegt til að tryggja öryggi. 

Líkt og Vísir greindi frá í gær hefur bæjarstjórn Grindavíkur ákveðið að hefja skuli undirbúning við niðurrif á íþróttahúsinu Hópinu í Grindavík. Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulagssviðs Grindavíkurbæjar gerir ráð fyrir að undirbúningur taki einhverjar vikur áður en framkvæmdir við niðurrif hefjast.

„Það er náttúrlega fyrst og fremst bara sorglegt að þurfa að rífa þetta hús þar sem að börnin okkar eru búin að sparka í fótbolta í öll þessi ár. Þannig að það er bara ömurleg staða að vera í,“ segir Atli. 

Því miður komi ekkert annað til greina. „Við viljum alla veganna vera búin að þessu með haustinu áður en veður fer að versna og húsin mögulega verða hættuleg fyrir þá sem eru í bænum, bara gagnvart foki og fleira.“

Til greina komi í framhaldinu að skoða fleiri niðurrifsverkefni. Til að mynda á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð og viðbyggingu við Hópskóla, og eftir atvikum á húsnæði í eigu einstaklinga og fyrirtækja. 

„Að einhverju leyti má kannski fara að huga að því líka hvar vilja menn halda í einhverjar sprungur eða mögulega einhverjar byggingar, bara skoða það, uppá að geta haldið aðeins utan um söguna íþessu og búa til mögulega einhverja áfangastaði íþessu. En það er svo sem bara verkefni sem situr á borði bæjarstjórnarinnar og mögulega framkvæmdanefndarinnar að einhverju leyti líka, “ segir Atli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×