Fótbolti

Sjáðu mörkin sem tryggðu Austur­ríki sigur í dauðariðlinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marcel Sabitzer skoraði markið sem skaut Austurríkismönnum á topp D-riðils.
Marcel Sabitzer skoraði markið sem skaut Austurríkismönnum á topp D-riðils. Alex Livesey/Getty Images

Austurríki stóð uppi sem óvæntur sigurvegari í D-riðli eftir frábæran 3-2 sigur gegn Hollendingum í dag.

Keppni lauk í C- og D-riðlum Evrópumótsins í dag og í kvöld og er óhætt að segja að mikill munur hafi verið á leikjum riðlanna. Sjö mörk voru skoruð í leikjunum tveimur í D-riðli, en ekki eitt einasta mark leit dagsins ljós í C-riðli.

Í lokaumferð D-riðils áttust Austurríki og Holland við annars vegar, og hins vegar Frakkland og Pólland. Austurríki, Frakkland og Holland áttu öll möguleika á því að vinna riðilinn, en Pólverjar þurftu á sigri að halda til að eiga möguleika á því að komast upp úr riðlinum.

Pólverjum tókst hins vegar ekki að vinna Frakka og eru því úr leik. Liðið náði þó í stig þegar Robert Lewandowski jafnaði metin með marki af vítapunktinum eftir að Kylian Mbappé hafði komið Frökkum yfir, einnig með marki af vítapunktinum. Lewandowski þurfti þó tvær tilraunir til að skora úr sinni spyrnu.

Jafntefli Frakklands og Póllands þýddi það aðbæði Austurríki og Holland gátu tryggt sér toppsæti riðilsins. Austurríkismenn gerðu sér lítið fyrir og unnu 3-2 sigur í leik þar sem liðið komst yfir í þrígang.

Donyell Malen varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark snemma leiks áður en Cody Gakpo jafnaði metin fyrir Hollendinga í upphafi síðari hálfleiks.

Romano Schmid kom Austurríki yfir á nýjan leik á 59. mínútu, en Memphis Depay jafnaði metin fyrir Hollendinga á 75. mínútu. Fimm mínútum síðar tryggði Marcel Sabitzer Austurríkismönnum þó 3-2 sigur og sigur í riðlinum um leið.

Í kvöldleikjunum í C-riðli voru hins vegar engin mörk skoruð. England tryggði sér efsta sæti riðilsins með markalausu jafntefli gegn Slóvenum og Danir og Serbar gerðu einnig markalaust jafntefli.

Danir elta Englendinga upp úr riðlinum og Slóvenar einnig sem eitt af fjórum liðum með bestan árangur í þriðja sæti. Serbar sitja þó eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×