Fótbolti

Gagn­rýndi ástríðulausan Van Dijk harð­lega

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Virgil van Dijk átti ekki sinn besta dag þegar Holland tapaði fyrir Austurríki í gær.
Virgil van Dijk átti ekki sinn besta dag þegar Holland tapaði fyrir Austurríki í gær. getty/Julian Finney

Virgil van Dijk, fyrirliði hollenska fótboltalandsliðsins, fékk fyrir ferðina eftir tapið gegn Austurríki, 2-3, á Evrópumótinu í Þýskalandi í gær.

Van Dijk gerði sig sekan um slæm mistök í sigurmarki Austurríkismanna en hann spilaði markaskorarann Marcel Sabitzer réttstæðan.

Rafael van der Vaart, sem lék 109 landsleiki fyrir Holland á árunum 2001-13, gagnrýndi Van Dijk harðlega eftir leikinn gegn Austurríki.

„Við spiluðum eins og Virgil van Dijk talaði,“ sagði Van Der Vaart á hollensku sjónvarpsstöðinni NOS.

„Við þurftum að horfa á ömurlega frammistöðu. Ég vil að fyrirliði landsliðsins sýni smá ástríðu.“

Holland lenti þrisvar undir í leiknum á Ólympíuleikvanginum í Berlín í gær en jafnaði tvisvar. Austurríki hélt hins vegar út eftir mark Sabitzers á 80. mínútu.

Hollendingar enduðu í 3. sæti D-riðils en enn liggur ekki fyrir hverjum þeir mæta í sextán liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×