Innlent

Mið­flokkurinn nartar í hæla Sjálf­stæðis­flokksins

Árni Sæberg skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er sennilega ekki ánægður með fimmtán prósent fylgi.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er sennilega ekki ánægður með fimmtán prósent fylgi. Vísir/Vilhelm

Sjálfstæðisflokkurinn missir tæplega þrjú prósentustig frá síðustu mælingu Maskínu en Sósíalistaflokkurinn bætir við sig tveimur. Marktækur munur er á fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sextánda mánuðinn í röð. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er nú 30 prósent og hefur aldrei verið lægra.

Þetta eru niðurstöður nýjustu könnunar Maskínu á fylgi flokkanna á landsvísu.

Maskína

Fylgi Samfylkingarinnar stendur í stað í 27 prósentum þriðja mánuðinn í röð. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar verulega og mælist nú aðeins fimmtán prósent. Athygli vekur að Miðflokkurinn nartar nú í hælana á Sjálfstæðisflokki og mælist með þrettán prósenta fylgi.

Framsóknarflokkurinn stendur í stað með tíu prósent, Viðreisn bætir lítillega við sig og mælist með tíu prósent. Það gera Píratar líka og mælast með níu prósent.

Hástökkvarinn milli kannanna er Sósíalistaflokkurinn, sem mælist með helmingi meira fylgi en í síðustu könnun, sex prósent. Það þýðir að Sósíalistar kæmu manni á þing ef gengið yrði til kosninga í dag.

Á eftir Sósíalistaflokknum kemur Flokkur fólksins með fimm prósent, einu prósentustigi minna en síðast. Vinstri græn reka svo lestina með fimm prósenta fylgi, þriðja mánuðinn í röð.

Könnunin fór fram dagana 31. maí til 20. júní 2024 og voru 1.846 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×