Neytendur

Sex fyrir­tæki sektuð vegna nikotín­aug­lýsinga

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Neytendastofa hefur haft til skoðunar auglýsingar á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur. Sex fyrirtæki fengu sektir fyrir brot gegn auglýsingabanni.
Neytendastofa hefur haft til skoðunar auglýsingar á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur. Sex fyrirtæki fengu sektir fyrir brot gegn auglýsingabanni. Egill Aðalsteinsson

Neytendastofa hefur sektað sex fyrirtæki fyrir brot gegn auglýsingabanni á nikotínvörum. Fyrirtækin sex eru Djákninn, FVN, Gryfjan, Innflutningur og dreifing, Nicopods og SH Import. Sektirnar eru frá 100 þúsund krónum að 400 þúsund.

Neytendastofa hefur haft til skoðunar auglýsingar á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur. Lagði stofnunin sérstaka áherslu á auglýsingar á samfélagsmiðlum, vefsíðum og utan á verslunum. Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að bannað sé að auglýsa vörurnar á samfélagsmiðlum.

Túlka beri hugtakið auglýsing rúmt og falla því þar undir allar myndbirtingar þar sem með beinum eða óbeinum hætti eru sýndar nikotínvörur, rafrettur eða áfyllingar fyrir rafrettur. Þetta eigi við óháð því hvort fyrirtækið hafi greitt fyrir aukna dreifingu myndanna eða ekki.

Þá segir til að mynda í einni ákvörðuninni:

„Hvað varðar færslur félagsins á samfélagsmiðlum, undir nöfnunum Fairvape, Snuskóngurinn og Silfurský, er um að ræða myndbirtingar eða sk. Stories sem sýna með beinum hætti nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir þær, eða þar sem þær eru sýndar óbeint, t.a.m. í bakgrunni auglýsingarinnar. Auglýsingarnar eru birtar í mismunandi tilgangi, ýmist til að auglýsa gjafaleiki, verðlækkanir eða til að kynna sjálfa vöruna. Þykir Neytendastofu engum vafa undirorpið að myndbirtingar með þessum hætti séu til þess að auka sölu á téðum vörum, enda vandséð að sérverslun með nikótínvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir þær birti myndir af vöruúrvali sínu í öðrum tilgangi en að kynna vörurnar fyrir neytendum til að auka sölu þeirra.“

Fyrirtækin fengu sem fyrr segir sektir sem hljóðuðu upp á allt að fjögurhundruð þúsund krónum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×