Innlent

Ragnar Stefáns­son jarð­skjálfta­fræðingur látinn

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ragnar Stefánsson var landsþekktur jarðskjálftafræðingur.
Ragnar Stefánsson var landsþekktur jarðskjálftafræðingur. Vísir/Arnar

Ragnar Kristján Stefánsson jarðskjálftafræðingur lést í gær á Landspítalanum. Ragnar var landsþekktur sem helsti jarðskjálftafræðingur þjóðarinnar og var einnig áberandi í félagsstörfum af ýmsu tagi.

Ragnar Stefánsson var í augum margra andlit jarðskjálftafræðanna, enda var hann um langt skeið reglulegur álitsgjafi í fjölmiðlum þegar fjalla átti um jarðskjálfta. Fyrir vikið var hann mörgum kunnugur sem Ragnar skjálfti.

Fyrir tveimur árum gaf Ragnar út bókina Hvenær kemur sá stóri?, þar sem gerð er grein fyrir þróun jarðskjálftafræðanna og jarðskjálftasaga Íslands reifuð. Efniviður bókarinnar er rannsóknir og ævistarf Ragnars, en rannsóknir  hans hafa meðal annar snúið að því hvernig hægt er að spá fyrir um jarðskjálfta. Bókin hlaut hin íslensku bókmenntaverðlaun í flokki fræðibóka og rita almenns efnis.

Ragnar var ekki síður þekktur fyrir félagsstörf, en hann var áberandi í þjóðmálaumræðunni sem róttækur vinstri maður. Hann var til að mynda í forystu æskulýðsfylkingarinnar á árunum 1966 - 1984, formaður framfarafélags Dalvíkurbyggðar frá stofnun þess 2002, og formaður samtakanna Landsbyggðin lifi á árunum 2003-2008. Hann var meðal stofnenda Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs árið 1999.

Sjálfsævisaga Ragnars, Það skelfur, kom út árið 2013.

Eiginkona Ragnars er Ingibjörg Hjartardóttir. Ragnar skilur eftir sig eiginkonu, börn, barnabörn og barnabarnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×