Innlent

Kol­ó­lög­legt og hættu­legt brún­ku­lyf í tísku á sam­fé­lags­miðlum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ragna Hlín húðlæknir er uggandi yfir því að ljósabekkir og ólöglega brúnkulyfið Melanotan séu í tísku.
Ragna Hlín húðlæknir er uggandi yfir því að ljósabekkir og ólöglega brúnkulyfið Melanotan séu í tísku. vísir/Getty

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir á húðlæknastöðinni, segir að ólöglegur brúnku-nefúði sem nú gengur kaupum og sölum á netinu og er mikið auglýstur á samfélagsmiðlum, sé hættulegur. Til að virkja lyfið þarf að fara í ljósabekk eða útsetja húðina fyrir sól. Ragna segir ljósabekki með eindæmum krabbameinsvaldandi og þykir miður að þeir séu nú í tísku.

Ólöglega brúnkulyfið Melanotan er efni sem framleitt er á tilraunastofu, hálfgert hormón sem líkir eftir melanocyte-stimulating hormóni, sem örvar myndun melananíns eða litarefnis í húðinni sem gerir okkur brún. „Þetta hefur verið til í fimmtán, tuttugu ár, en var ekkert sérstaklega trendy. Þetta er til bæði í sprautuformi og sem nefsprey sem núna hefur tröllriðið öllu,“ segir Ragna.

Fjallað var um lyfið á Vísi fyrir fimm árum síðan. Þá sagðist íslensk kona sem hafði notað lyfið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir sólarexem og bruna vera „skíthrædd“ við að nota lyfið. Henni leið skringilega og fékk alls konar nýja fæðingarbletti.

Efnið kolólöglegt og hættulegt

Ragna segir að lyfið sé kolólöglegt, og hættulegt. Alls konar aukaverkanir geti fylgt notkun lyfsins, og þær hættulegustu geti verið lífshættulegar.

„Sko þetta er kallað barbí-lyfið af því að þetta eykur brúnku og minnkar matarlyst, fólki verður óglatt. Svo eykur þetta kynhvöt líka. Það eru mjög alvarlegar aukaverkanir sem geta fylgt líka,“ segir Ragna.

Aukaverkanir geti verið nýrnabilun, vöðvaniðurbrot, áhrif á heilann, krampi, og heilabjúgur. „Svo geturðu fengið sortuæxli, sem er lífshættulegt húðkrabbamein. Það er það sem við fáum á okkar borð og höfum áhyggjur af,“ segir Ragna.

Ragna segir þó að um sé að ræða smá „svona hænan og eggið dæmi,“ af því að týpurnar sem nota lyfið séu yfirleitt fólk sem annars fer mikið í ljósabekki, liggur lengi í sólinni og annað slíkt. Það sé einnig mjög óhollt fyrir húðina.

Uggandi yfir því að ljósabekkir séu aftur í tísku

Ragna segir að ljósabekkir séu stórhættulegir, og er uggandi yfir því að þeir séu komnir aftur í tísku. Hún segir að alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi nýlega sett ljósabekki í sama flokk og sígarettur, hlutirnir séu álíka krabbameinsvaldandi.

„Ungt fólk er farið að stunda ljós kannski tvisvar, þrisvar í viku. En einn tími í ljósabekk eykur líkur á húðkrabbameini hundraðfalt,“ segir Ragna.

Vilji fólk verða brúnt, mælir Ragna með brúnkukremi. „Brúnkukremin eru stórfín, þau eru langbesta brúnkuaðferðin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×