Innlent

Hugsi yfir lausagöngu fjár við vegi eftir að ferða­maður ók á lamb

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lambið var í fylgd ær og annars lambs sem sluppu með skrekkinn.
Lambið var í fylgd ær og annars lambs sem sluppu með skrekkinn. Facebook

Ferðalangur sem varð vitni að því þegar bíl spænskra ferðamanna var ekið á lamb í gær segir lausagöngu kinda nærri þjóðvegum rómantík sem fari ekki saman við nútímann. 

Guðrún Helga Stefánsdóttir var á leið um Snæfellsnesið ásamt fjölskyldu sinni þegar bíl fyrir framan hana var ekið á lamb með þeim afleiðingum að það drapst. Í bílnum voru spænskir ferðamenn sem gátu enga ensku talað. 

Guðrún segir frá þessu í færslu á Facebook síðunni Bakland ferðaþjónustunnar. Þar segist hún reið yfir því gáleysi sem hún telur ökumanninn sekan um og að hún vonist til að bóndinn fái tjónið bætt. 

Drapst sem betur fer strax

Í samtali við fréttastofu segist hún hafa séð lausaféð við hlið vegarins áður en þau komu að afleggjaranum við Búðir og því hafi verið hægt á bílnum. Ökumaðurinn fyrir framan virðist hins vegar ekki hafa séð kindurnar, því hann hafi ekki hægt á sér. 

„Svo leggur ærin allt í einu af stað með lömbin fyrir framan bílinn og hann er á það mikilli ferð að lambið sem verður fyrir þessu hoppar hátt upp í loft, lendir harkalega á veginum og steindrepst,“ segir Guðrún. Sem betur fer hafi það drepist strax og ekki þurft að kveljast lengi. Hún segir ána og lambið sem sluppu hæglega geta verið slösuð. 

Hún segist hafa upplifað gáleysi því þau hafi ekki hægt á sér. „Við vorum búin að sjá lausaféð á veginum áður og þá þarf maður að vera vel vakandi. Um leið og maður sér lausafé við veginn þá hægir maður á sér,“ segir Guðrún.

Verið að hætta lífi fólks í umferðinni

Hún segir ferðamennina hafa verið í uppnámi og hún hafi skilið ökumanninn þannig að hann hafi ekki séð kindurnar. Hún segist hafa tilkynnt málið til lögreglu og nú sé þeirra að hafa upp á ferðamönnunum. 

Guðrún veltir því upp hvort það sé tímaskekkja að leyfa lausagöngu fjár við þjóðvegi. „Ég skil að það er gamall menningararfur að hafa fé laust en nútíminn er svo breyttur,“ segir hún og nefnir síaukna bílaumferð á vegum, meðal annars vegna ferðamanna, sem eru misvanir. 

„Við getum ekki samtímis verið að beina öllum þessum ferðamönnum til landsins, og það er svona mikil umferð, og ætlað að vera með svona rómantík að hafa lausafé. Þetta fer náttúrlega ekki saman og það er verið að hætta lífi okkar í umferðinni og skeppnanna. Þetta er ömurlegt og við eigum að geta gert betur.“

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×