Fótbolti

Segja ballið búið hjá Heimi og Jamaíka

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson gæti þurft að hefja atvinnuleit á næstunni.
Heimir Hallgrímsson gæti þurft að hefja atvinnuleit á næstunni. Candice Ward/Getty Images

Fjölmiðlar í Jamaíka fullyrða það að Heimir Hallgrímsson muni stýra jamaíska landsliðinu í knattspyrnu í síðasta sinn í kvöld.

Jamaíka mætir Venesúela í síðustu umferð riðlakeppninnar á Suður-Ameríkumótinu í kvöld, en ef marka má jamaíska miðilinn Jamaica Observer verður það í síðasta sinn sem Heimir mun stýra liðinu.

Nú þegar er orðið ljóst að Jamaíka kemst ekki upp úr riðlinum á Suður-Ameríkumótinu. Observer segir þó að samband Heimis við Jamaíska knattspyrnusambandið sé ekki gott og að báðir aðilar séu orðnir pirraðir á hvorum öðrum.

Heimir tók við jamaíska liðinu árið 2022 og var markmiðið að koma liðinu á HM 2026 sem haldið verður í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó. Undir hans stjórn hefur liðið unnið ellefu leiki, gert sex jafntefli og tapað níu leikjum. 

Samningur Heimis við jamaíska knattspyrnusambandið gildir til ársins 2026, en nú virðist sem tími hans sem landsliðsþjálfari Jamaíka sé á enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×