Enski boltinn

Borga yfir þrjá­tíu milljarða fyrir þrjú ár framan á búningum Rauðu djöflanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rasmus Höjlund, Alejandro Garnacho og Kobbie Mainoo eru sáttir með nýju treyjuna.
Rasmus Höjlund, Alejandro Garnacho og Kobbie Mainoo eru sáttir með nýju treyjuna. Manchester United

Enska knattspyrnufélagið Manchester United opinberaði í dag að tæknifyrirtækið Snapdragon yrði framan á búningum félagsins næstu þrjú árin. Hljóðar samningurinn upp á 225 milljónir Bandaríkjadala yfir þrjú ár eða rúmlega 31 milljarði íslenskra króna.

Rauðu djöflarnir kynntu Snapdragon til leiks í dag með myndbandi af dýrari gerðinni. Goðsögnin Eric Cantona var fenginn í kynningarmyndbandið þar sem farið var yfir sögu félagsins og tengingu þess við stuðningsfólk sitt. 

Ekki nóg með það heldur sýndi Sir Alex Ferguson einnig leiklistahæfileika sína í auglýsingunni. Helsti punktur myndbandsins er að það er ekki nafnið aftan á treyjunni sem skiptir öllu máli heldur það sem er framan á henni.

Snapdragon er tæknifyrirtæki sem framleiðir örgjörva í síma og önnur snjalltæki. The Athletic hefur kafað ofan í samning Snapdragon og Man United. Samningurinn er til þriggja ára en Snapdragon getur framlengt hann um tvö ár þegar þrjú ár eru liðin. 

Samningurinn hljóðar upp á 75 milljónir dala á ári og skiptir engu hvort karlalið félagsins komist í Meistaradeild Evrópu eður ei. Þá vill fyrirtækið bjóða kvennaliði Man United til Bandaríkjanna til að spila við San Diego Wave á Snapdragon-vellinum í Kaliforníu. 

Karlaliðið spilaði við Wrexham á þeim velli á síðasta ári og mun spila við Real Betis frá Spáni þar í sumar þegar það undirbýr sig fyrir komandi leiktíð í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×