Fótbolti

Cody Gakpo: Sagði við mig í gær­kvöldi að ég myndi skora fyrsta markið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cody Gakpo fagnar hér markinu sínu með sjúkraþjálfara hollenska liðsins.
Cody Gakpo fagnar hér markinu sínu með sjúkraþjálfara hollenska liðsins. Getty/Kevin Voigt

Cody Gakpo skoraði og lagði upp mark þegar Holland tryggði sér sæti í átta liða úrslitum á EM með 3-0 sigri á Rúmenum í kvöld.

„Mér fannst við spila vel í þessum leik og við svöruðum vel fyrir síðasta leik. Ég er mjög ánægður. Ekki síst vegna þess hvernig síðasti leikur fór. Þetta var skref í rétta átt,“ sagði Cody Gakpo eftir leikinn. Holland tapaði 3-2 fyrir Austurríki í leiknum á undan.

„Við töluðum mikið um að vera grimmir, vera með réttu ákefðina og verjast sem eitt lið. Þetta var gott skref og ég mjög ánægður með að við unnum,“ sagði Gakpo. Hann er kominn með þrjú mörk á Evrópumótinu.

Það vakti athygli að Gakpo fagnaði markinu sínu með sjúkraþjálfara hollenska liðsins.

„Hann sagði við mig í gærkvöldi að ég myndi skora fyrsta markið og þess vegna fagnaði ég með honum,“ sagði Gakpo.

Auk þess að skora fyrsta markið þá lagði hann upp annað markið á laglegan hátt.

„Þetta var flott frammistaða hjá öllum. Við erum að fórna okkur fyrir hvern annan og leggja á okkur mikla vinnu til að vera upp á okkar besta. Góður leikur hjá okkur,“ sagði Gakpo.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×