Fótbolti

Telur sig geta platað Klopp til að taka við Banda­ríkjunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tim Howard telur sig hafa gríðarlegan sannfæringarkraft.
Tim Howard telur sig hafa gríðarlegan sannfæringarkraft. vísir/getty images

Tim Howard, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Bandaríkjanna, segist handviss um að hann geti platað Jürgen Klopp, fyrrverandi þjálfara Liverpool, til að taka við bandaríska landsliðinu fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer að hluta til í Bandaríkjunum eftir tvö ár.

Eftir afhroð í Suður-Ameríkukeppninni er sæti Gregg Berhalter talið gríðarlega heitt og í raun aðeins tímaspursmál hvenær hann verður látinn fara. 

Hinn 45 ára gamli Howard spilaði á sínum tíma 121 A-landsleik fyrir þjóð sína ásamt því að eiga farsælan feril á Englandi með Manchester United og Everton, sem og í Bandaríkjunum.

Howard segir í pistli hjá Daily Mail að hann muni persónulega fljúga til Spánar þar sem Klopp er í fríi og sannfæra hann um að taka við Bandaríkjunum.

„Ég veit að Klopp hætti aðeins fyrir nokkrum vikum og sagðist vilja pásu. En ef við myndum setjast niður í villunni hans á Spáni er ég 100 prósent viss um að ég gæti sannfært hann að koma yfir til Bandaríkjanna.“

„Fjármagnið er til staðar. Söluræðan væri sú að hann myndi hafa unga sókndjarfa leikmenn sem spila af mikilli ákefð, alveg eins og Liverpool-liðin hans. Svo tveimur árum síðar getur hann farið á stærsta heimsmeistaramót sögunnar,“ sagði Howard einnig.

Hvort Klopp láti til leiðast á eftir að koma í ljós en HM 2026 fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×