Fótbolti

Segja að Southgate gæti skipt um leik­kerfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Southgate ræðir hér við leikmenn sína fyrir framlenginguna á móti Slóvakíu.
Gareth Southgate ræðir hér við leikmenn sína fyrir framlenginguna á móti Slóvakíu. Getty/Eddie Keogh

Ekki hefur vantað gagnrýnina á leik enska landsliðsins á EM þótt að liðið hafi unnið sinn riðil og sé komið alla leið í átta liða úrslitin. Nú er von á breytingum hjá landsliðsþjálfaranum Gareth Southgate.

Enskir miðlar eins og The Independent og The Telegraph segja að enska landsliðið hafi verið að prófa nýtt leikkerfi á æfingum liðsins fyrir leik á móti Sviss í átta liða úrslitunum en leikurinn fer fram á laugardaginn.

Hér má sjá greinina í The Independent og hér má sjá greinina í The Telegraph.

Það er gríðarleg pressa á Southgate enda mikil óánægja með frammistöðu enska liðsins.

Enskir fjölmiðlamenn búast við því að Southgate stilli upp þriggja manna vörn í næsta leik.

Hann er tilneyddur til að breytta vörninni þar sem að miðvörðurinn Marc Guehi tekur út leikbann á móti Svisslendingum.

Það lítur einnig út fyrir það að Luke Shaw sé enn ekki leikfær en Southgate ákvað að fara með meiddan leikmann á Evrópumótið.

Búist er við því að Aston Villa maðurinn Ezri Konsa komi inn fyrir Guehi. Konsa gæti spilað í þriggja manna vörn við hlið þeirra John Stones og Kyle Walker.

Southgate notaði 3-5-2 leikkerfið á HM 2018 þegar enska landsliðið komst alla leið í undanúrslitin.

Hann skipti líka í þetta kerfi undir lokin á leiknum við Slóvakíu í sextán liða úrslitunum þegar enska liðið var undir og þurfti mark. Það gekk upp sem þykir auka líkur á því að liðið verði með þriggja manna vörn á móti Sviss.

Bukayo Saka verður þá væntanlega vinstri vængbakvörður eins hann car og í lokin á móti Slóvökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×