Fótbolti

Tyrkir segja að Demiral hafi ekki verið dæmdur í bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér má sjá þetta „úlfatákn“ sem kom Tyrkjanum Merih Demiral í vandræði.
Hér má sjá þetta „úlfatákn“ sem kom Tyrkjanum Merih Demiral í vandræði. Getty/Hendrik Schmidt

Þýska blaðið Bild sló því upp í gær að hetja tyrkneska landsliðsins, Merih Demiral, væri kominn í tveggja leikja bann og myndi missa af leikjum í átta liða úrslitum og undanúrslitum á Evrópumótinu í Þýskalandi. Tyrkneska sambandið hafnar þessum fréttum.

Demiral skoraði tvö mörk í sigri á Austurríki í sextán liða úrslitum EM en fór fyrir aganefnd UEFA af því að hann fangaði marki með því að gera „úlfatákn“ með höndunum, en um er að ræða tákn Gráúlfanna, hóps öfgaþjóðernissinna í Tyrklandi.

Bild sagði að UEFA hefði ákveðið að dæma Demiral í tveggja leikja bann. Samkvæmt viðbrögðum tyrkneska sambandsins þá er ekki búið að dæma í málinu og að tyrkneska sambandið eigi enn eftir að segja sína hlið fyrir dómstóli UEFA. Frestur til þess rennur ekki út fyrr en í dag.

Verdens Gang segir frá þessum nýju vendingum í málinu.

Það að gera svona tákn, eins og sjá má á myndinni sem fylgir þessari frétt, hefur til að mynda verið bannað með lögum í Austurríki, frá árinu 2019. Brot á þeim lögum varða sekt upp á allt að fjögur þúsund evrum, eða sex hundruð þúsund íslenskum krónum.

Demiral er gríðarlega mikilvægur fyrir Tyrkina, hann skoraði ekki aðeins bæði mörkin í sigrinum á Austurríki heldur átti hann einnig stórleik í miðri vörninni.

Tyrkir mæta Hollendingum á morgun í átta liða úrslitum EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×