Ó­vænt hetja bjargaði Spáni frá vító

Sindri Sverrisson skrifar
Mikel Merino fagnar sigurmarki sínu sem kom þegar vítaspyrnukeppni virtist blasa við.
Mikel Merino fagnar sigurmarki sínu sem kom þegar vítaspyrnukeppni virtist blasa við. Getty/Alex Caparros

Gestgjafar Evrópumótsins, Þjóðverjar, eru úr leik eftir dramatískt tap í átta liða úrslitum gegn Spáni í kvöld, 2-1, í framlengdum leik.

Það var óvænt hetja sem kom Spánverjum í undanúrslitin því sigurmark leiksins skoraði hinn 28 ára gamli Mikel Merino, rétt áður en vítaspyrnukeppnin hefði tekið við. Þetta var aðeins annað mark hans fyrir Spán, í 26. A-landsleik þessa 28 ára gamla leikmanns Real Sociedad.

Þessi stórleikur olli engum vonbrigðum og þó að engin mörk væru skoruð í fyrri hálfleik þá var nóg um að vera. Dani Olmo kom svo Spáni yfir á 51. mínútu þegar hann skoraði eftir undirbúning Lamine Yamal. 

Þjóðverjum óx ásmegin eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og þeir áttu góðar tilraunir til að jafna, meðal annars stangarskot, áður en Florian Wirtz jafnaði rétt fyrir leikslok, á 89. mínútu, og tryggi Þýskalandi framlengingu.

Framlengingin var svo bráðfjörug en eina markið kom frá Merino á 119. mínútu eins og fyrr segir, með skalla eftir frábæra sendingu Olmo.

Þar með eru Þjóðverjar úr leik og ferli miðjumannsins magnaða Toni Kroos lokið en hann var hylltur í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira