Fótbolti

Fyrsta mark Eggerts eftir mínútu á vellinum

Sindri Sverrisson skrifar
Eggert Aron Guðmundsson er kominn á blað í Svíþjóð.
Eggert Aron Guðmundsson er kominn á blað í Svíþjóð. Getty/Seb Daly

Eggert Aron Guðmundsson skoraði með afar laglegum hætti sitt fyrsta mark í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Lið hans Elfsborg vann þá 3-0 sigur á Brommapojkarna.

Keppni hófst að nýju eftir mánaðarlangt sumarfrí í sænsku deildinni í dag.

Eggert var á varamannabekknum hjá Elfsborg fram á 86. mínútu en aðeins mínútu síðar hafði hann skorað þriðja mark Elfsborg í leiknum, eftir að hafa sótt einn gegn þremur varnarmönnum og komist alveg að markverðinum.

Þetta var aðeins þriðji deildarleikur Eggerts með Elfsborg eftir að hann kom til félagsins frá Stjörnunni. Hann glímdi við meiðsli í vetur og í upphafi tímabils, og hefur samtals aðeins spilað 15 mínútur í deildinni en nú skorað eitt mark.

Andri Fannar Baldursson var á varamannabekk Elfsborg allan leikinn í dag.

Elfsborg komst með sigrinum upp í 7. sæti og er með 19 stig eftir 14 leiki, en Brommapojkarna sitja eftir með 15 stig í 11. sæti af 16 liðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×