Innlent

Miklar fram­kvæmdir á Kirkju­bæjar­klaustri fyrir unga fólkið

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það er allt að gerast á Kirkjubæjarklaustri þegar íþrótta- og æskulýðsmál eru annars vegar.
Það er allt að gerast á Kirkjubæjarklaustri þegar íþrótta- og æskulýðsmál eru annars vegar. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sjaldan eða aldrei hefur verið unnið eins mikið af uppbyggingu góðrar íþrótta- og æskulýðsaðstöðu á Kirkjubæjarklaustri eins og nú, en gott dæmi um það er upphitaður körfuboltavöllur, sem hægt er að breyta í blakvöll.

„Hér erum við að fá nýjan körfuboltavöll, körfuboltavöllur með sex körfum. Hann verður upphitaður þannig að það verður hægt að stunda hér körfubolta allan ársins hring. Svo ráðgerum við líka að hanna hann þannig að hægt sé að stilla upp í til dæmis blak hér á vellinum og eins líka sport, sem er mjög vinsælt hérna núna og heitir Ringó,” segir Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Skaftárhrepps.

Sigurður segir ótrúlegt margt í boði á Kirkjubæjarklaustri þegar um er að ræða íþrótta- og æskulýðsmál enda krakkarnir duglegir að taka þátt. Fótboltinn sé til dæmis alltaf mjög vinsæll.

En hvað eru vinsælustu íþróttagreinarnar?

„Núna eru það boltagreinarnar, körfuboltinn mjög sterkur og eins fótboltinn alltaf vinsæll. Svo erum við líka með blak og karate í gangi.”

Og eru þetta krakkar á öllum aldri, stelpur og strákar í íþróttum?

„Já það er það. Kannski mætti vera meira af stelpum en þær eru svona eins og oft vill verða kannski að mæta meira þegar þær eru yngri en svo þegar þær fara að eldast og komast á unglingsárin þá kannski falla þær út en það er þekkt vandamál á landsvísu. En yfir heildina er mjög góð þátttaka eins og síðasta vetur en þá vorum við með 38 af 43 börnum á grunnskólaaldri á einhverjum íþróttaæfingum, sem er náttúrulega bara glæsilegt,” segir Sigurður Eyjólfur.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, sem er íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Skaftárhrepps.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×