Nöfnin sem fengu grænt ljós voru karlmannsnöfnin Núri og Foster og kvenmannsnöfnin Roj, Ana, Ahelia, og Maríabet.
Nafnið sem Mannanafnanefnd samþykkti ekki var kvenmannsnafnið Hronn. Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að það uppfylli þrjú af fjórum skilyrðum laga um mannanöfn. Nafnið tekur íslenskri eignarfallsendingu, það brýtur ekki í bága við íslenskt málkerfi og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera þess til ama.
Nefndin hafnaði Hronn vegna skilyrðis um að ný nöfn skuli ekki koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Hronn sé breyting á nafninu Hrönn og því aðeins hægt að samþykkja það í síðarnefnda rithættinum.
Þá er minnst á í úrksurðinum að ekki séu til dæmi um að fólk hafi borið eiginnafnið Hronn.