Íslenski boltinn

Bestu mörkin um botns­laginn: „Það var skjálfti beggja vegna“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eva Rut Ástþórsdóttir í einum af þeim fáum leikjum sem Fylkir hefur fengið eitthvað út úr.
Eva Rut Ástþórsdóttir í einum af þeim fáum leikjum sem Fylkir hefur fengið eitthvað út úr. Vísir/Anton Brink

Farið var yfir gengi Fylkis í Bestu deild kvenna í fótbolta í síðasta þætti Bestu markanna. Liðið hefur ekki unnið leik síðan í 3. umferð eða þann 2. júní síðastliðinn.

„Þær byrja rosalega vel og það var rosalega jákvætt ára yfir þeim. Vinna Keflavík í fyrri viðureign þeirra. Síðan fer að halla undan og maður ímyndar sér að hausinn þyngist aðeins,“ sagði Helena Ólafsdóttir þáttastjórnandi og hélt áfram.

„Þær eru að tapa fyrir liðum í kringum sig, gera jafntefli við Víking sem maður myndi ætla að væri jákvætt en þessi leikur er upp á líf og dauða. Þetta er sex stiga leikur ef við notum gömlu klisjuna,“ segir Helena um 1-0 tap Fylkis í Keflavík í 12. umferð Bestu deildarinnar.

„Maður hefði viljað sjá fleiri færi en þetta er pínu dæmigerður streituleikur, það vita allir hvað það er mikið undir. Þetta er ógeðslega erfitt, ég þekki það – alltof vel,“ sagði Sif Atladóttir, sérfræðingur og bætti svo við:

„Það var skjálfti beggja vegna, Keflavík skorar snemma og hafa skorað snemma áður en fengið allt í andlitið. Þær þéttu ótrúlega vel, múruðu fyrir (markið) en maður hefði viljað sjá Fylki sprengja þetta að einhverju leyti upp. Hvort þú tapir 1-0 eða 2-0 á þessum tímapunkti skiptir í raun engu máli.“

Hér að neðan má sjá Helenu, Sif og Margréti Láru Viðarsdóttur ræða leik Keflavíkur og Fylkis ásamt gengi Árbæinga í sumar.

Klippa: Bestu mörkin um botnslaginn: „Það var skjálfti beggja vegna“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×