Fótbolti

Luke Shaw loksins leikfær: Síðustu fjórir mánuðir erfiðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Shaw fagnar sigri enska landsliðsins í átta liða úrslitum Evrópumótsins.
Luke Shaw fagnar sigri enska landsliðsins í átta liða úrslitum Evrópumótsins. Getty/Matt McNulty

Luke Shaw er búinn að ná sér af meiðslunum og gæti því byrjað inn á í enska landsliðinu í undanúrslitaleik Evrópumótsins annað kvöld.

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, valdi Shaw í EM-hópinn þrátt fyrir að hann var meiddur. Shaw er eini vinstri bakvörðurinn í hópnum en hafði ekkert tekið þátt í mótinu þegar hann kom inn á sem varamaður á móti Sviss í átta liða úrslitunum.

„Síðustu fjórir mánuðir hafa verið erfiðir. Í fyrstu var talið að ég yrði mun fljótari að koma til baka en raunin varð önnur. Ég lenti í bakslagi hvað eftir annað,“ sagði Shaw á blaðamannafundi í gær.

„Þegar hópurinn var valinn þá var búist við því að ég myndi ná öðrum eða þriðja leik í mótinu en því miður gekk það ekki upp og endurkomunni seinkaði,“ sagði Shaw.

„Ég er hérna núna og það var mjög gott að komast aftur inn á völlinn í síðasta leik. Ég var farinn að iða í skinninu að fá að spila,“ sagði Shaw sem gæti byrjað inn í leiknum á móti Hollandi annað kvöld.

„Það stóðu allir með mér, ekki bara Gareth og Steve [Holland, aðstoðarþjálfari Englands] heldur einnig læknaliðið líka. Ég á þeim mikið að þakka,“ sagði Shaw. Hann efast ekki um getu sína að spila allan leikinn á morgun.

„Auðvitað tel ég mig vera tilbúinn í níutíu mínútur. Ég er klár og tilbúinn í slaginn,“ sagði Shaw.

Shaw kom inn á völlinn á 78. mínútu á móti Sviss og spilaði rúmar 42 mínútur því leikurinn var framlengdur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×