Fótbolti

Man United ná­lægt því að selja Greenwood til Frakk­lands

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mason Greenwood gæti verið á leið til Frakklands.
Mason Greenwood gæti verið á leið til Frakklands. Diego Souto/Getty Images

Franska úrvalsdeildarliðið Marseille nálgast það að festa kaup á hinum 22 ára gamla Mason Greenwood frá Manchester United.

Greenwood hefur ekki leikið með United í um tvö og hálft ár, eða síðan hann var sakaður um kynferðisbrot og heimilisofbeldi gagnvart kærustu sinni árið 2022.

Hann fékk þó tækifæri með Getafe á síðasta tímabili þar sem hann var á láni frá United. Hjá Getafe lék Greenwood 33 deildarleiki og skoraði í þeim átta mörk.

Frá árinu 2018 hefur Greenwood leikið 83 deildarleiki fyrir United og skoraði í þeim 22 mörk. Þá hefur hann leikið einn leik fyrir enska landsliðið árið 2020. Sá leikur var á Laugardalsvelli þar sem Englendingar unnu 1-0 sigur gegn íslenska landsliðinu. Leikurinn dró þó dilk á eftir sér fyrir Greenwood og kollega hans hjá Manchester City, Phil Foden.

Nú virðist kafla Greenwood hjá Manchester United hins vegar vera að ljúka. Greenwood er sagður vera á leið til Marseille í Frakklandi fyrir um 30 milljónir punda, eða um 5,3 milljarða íslenskra króna.

Marseille sendi tilboð í leikmanninn í gær og er talið að samningaviðræður gangi vel. Félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir hins vegar frá því að United vilji fá 40-50 prósent af söluverði Greenwoods ef Marseille selur leikmanninn aftur í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×