Fótbolti

Rabiot sagði að Yamal þyrfti að gera meira en fékk það í and­litið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adrien Rabiot horfir á Lamine Yamal skora jöfnunarmark Spánverja gegn Frökkum.
Adrien Rabiot horfir á Lamine Yamal skora jöfnunarmark Spánverja gegn Frökkum. getty/Stu Forster

Lamine Yamal skoraði stórglæsilegt mark þegar Spánn tryggði sér sæti í úrslitum EM með sigri á Frakklandi, 2-1, á Allianz Arena í kvöld. Maðurinn sem reyndi að dekka Yamal í markinu hans skaut á strákinn fyrir leik en fékk það heldur betur í bakið.

Randal Kolo Muani kom Frökkum yfir á 5. mínútu í leiknum í kvöld. Á 21. mínútu fékk Yamal boltann fyrir utan vítateig og lét vaða. Boltinn fór í stöng og inn og staðan orðin jöfn, 1-1. Fjórum mínútum síðar skoraði Dani Olmo sigurmark spænska liðsins.

Fyrir leikinn hafði Adrien Rabiot, miðjumaður Frakklands, tjáð sig um frammistöðu hins sextán ára Yamals á EM.

„Augljóslega gæti það verið erfitt fyrir hann að spila undanúrslitaleik á stórmóti. Og til að komast í úrslit á EM þarf hann að gera meira en hann hefur gert hingað til,“ sagði Rabiot.

Hann þurfti heldur betur að éta þessi orð ofan í sig því Yamal skoraði í leiknum í kvöld og Spánverjar eru komnir í úrslit. Og hver var næstur Yamal þegar hann setti boltann í netið? Auðvitað Rabiot.

Yamal er yngsti markaskorari í sögu Evrópumótsins, sextán ára og 362 daga gamall. Hann fagnar sautján ára afmæli sínu á laugardaginn, daginn fyrir úrslitaleikinn þar sem Spánn mætir annað hvort Englandi eða Hollandi.

Rabiot og Frakkar eru hins vegar á heimleið frá Þýskalandi eftir að hafa heillað fáa á mótinu. Til að mynda var mark Kolos Munai það eina sem Frakkland skoraði úr opnum leik á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×