Fótbolti

Kólumbíumenn komust í úr­slita­leikinn tíu á móti ellefu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davinson Sanchez fagnar Jefferson Lerma í leikslok en sá síðarnefndi skoraði sigurmarkið í leiknum.
Davinson Sanchez fagnar Jefferson Lerma í leikslok en sá síðarnefndi skoraði sigurmarkið í leiknum. Getty/Robin Alam

Kólumbía tryggði sér sæti í úrslitaleik Suðurameríkukeppninnar í nótt eftir 1-0 sigur á Úrúgvæ í undanúrslitaleik þjóðanna.

Kólumbíumenn mæta heimsmeisturum Argentínu í úrslitaleiknum um helgina. Argentína vann 2-0 sigur á Kanada í fyrri undanúrslitaleiknum.

Eina mark leiksins skoraði Jefferson Lerma á 39. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá James Rodríguez.

Þetta var sjötta stoðsending James í keppninni. Hann er sá fyrsti sem nær því á stórmóti karla í fótbolta síðan Pele gerði það á HM 1970 í Mexíkó.

Daniel Muñoz fékk rauða spjaldið í uppbótartíma fyrri hálfleiks fyrir sitt annað gula spjald og Kólumbíumenn voru því manni færri allan seinni hálfleikinn.

Kólumbíumenn hafa nú leikið 28 leiki í röð án þess að tapa eða alla leiki sína frá því að þeir töpuðu fyrir Argentínu í febrúar 2022.

Þetta er í fyrsta sinn í 23 ár sem Kólumbía spilar til úrslita í Copa América eða síðan þeir unnu keppnina á heimavelli árið 2001. Þetta er aðeins þriðji úrslitaleikur þjóðarinnar eftir tap í úrslitaleiknum árið 1975.

Það voru ljótar senur í leikslok. Liverpool maðurinn Darwin Núnez sást þá slá kólumbískan stuðningsmann eftir að hann og fullt af liðsfélögum fóru upp í stúku inn í hóp kólumbískra stuðningsmanna.

Leikmennirnir sögðust hafa verið að verja fjölskyldumeðlimi sína og sögðu enga lögreglu hafa verið á svæðinu til að halda stuðningsfólki Kólumbíu í skefjum.

Núnez hafði farið illa með fjölda færa í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik, og Luis Suárez skaut í stöngina eftir að hafa komið inn á sem varamaður í seinni hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×