Heimir byrjaði þjálfaraferil sinn í meistaraflokki í Vestmannaeyjum og þjálfaði bæði kvenna- og karlalið félagsins. Hans fyrsta tækifæri sem þjálfari landsliðs var aðstoðarmaður Lars Lagerback en síðan tók hann við íslenska landsliðinu.
Eftir það þjálfaði hann reyndar félagsliðið Al-Arabi í Katar en það er kannski bara undantekningin sem sannar regluna. Reyndar er Katar eins og hálfgert eyríki á Arabíuskaganum en það er önnur saga.
Ný eyja til að blómstra á
Heimir þurfti greinilega að komast á eyju og tók næst við landsliði Jamaíka sem þjálfaði í tæp tvö ár. Í gær var Heimir síðan kynntur sem þjálfari írska landsliðsins og er því á nýbúinn að finna sér eyju til að blómstra á.

Sú eyja er reyndar miklu nær því að vera Ísland en nokkurn tímann Jamaíka í Karabíska hafinu. Eftir langan tíma í allt öðrum menningarheimum er kominn tími hjá Eyjamanninum til að snúa aftur til baka til Evrópu.
Gert frábæra hluti
Á öllum þessum eyjum hefur Heimir vissulega gert frábæra hluti. Hann kom karlaliði ÍBV upp um deild og upp í toppbaráttu, fór upp um meira en hundrað sæti á FIFA-listanum með íslenska landsliðinu, kom því inn á sín fyrstu stórmót og undir hans stjórn hefur Jamaíka hækkað sig á FIFA-listanum og tryggt sér sæti á stórmóti.

Heimir tók við þjálfun karlaliðs ÍBV í ágúst 2006 en tókst ekki að bjarga liðinu úr slæmri stöðu. Hann hélt hins vegar áfram með liðið sem endaði í fjórða sæti í B-deildinni 2007 og komst síðan aftur upp með því að vinna B-deildina sumarið 2008.
Liðið hélt sæti sínu á fyrsta ári og var síðan í toppbaráttunni sumarið 2010 þar sem liðið endaði að lokum í þriðja sæti, aðeins tveimur stigum frá Íslandsmeistaratitli. ÍBV varð síðan aftur í þriðja sætið árið eftir.
Upp um meira en hundrað sæti
Þegar Heimir og Lars tóku við íslenska landsliðinu þá fór liðið alla leið niður í 131. sæti FIFA-listans í apríl 2012 áður en þeir félagar komu liðinu inn á EM 2016 og upp í 22. sæti. Þeir bjuggu til gullaldarlið sem verður seint toppað.
Heimir átti síðan eftir að fara með íslenska liðið inn á topp tuttugu í heiminum og inn á sitt fyrsta heimsmeistaramót eftir að hann tók einn við liðinu.
Heimir kvaddi íslenska landsliðið eftir HM 2018 en íslenska liðið var í 32. sæti á heimslistanum eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi. Liðið var í 70. sæti á síðasta styrkleikalista FIFA.

Þegar Heimir tók við liði Jamaíka í september 2022 þá var landsliðið í 64. sæti á FIFA-listanum en á þessum tæpu tveimur árum þá hefur hann komið liðinu upp um ellefu sæti og upp í 53. sæti á júnílistanum.
Hafa verið á niðurleið
Nú verður fróðlegt að fylgjast með írska landsliðinu. Írarnir voru í 60. sæti á nýjasta FIFA-listanum en fyrir tæpum fimm árum voru þeir í 28. sæti. Þeir hafa eins og íslenska landsliðið eftir að Heimir fór, verið á niðurleið á listanum.

Írar hafa misst af síðustu fjórum stórmótum og það er styttra síðan að bæði Ísland og Heimir voru á stórmóti. Þegar írska landsliðið var síðast með þá komst liðið í sextán liða úrslit á Evrópumótinu í Frakklandi. Mótinu þar sem Heimir og Lars fóru í átta liða úrslit með sigri á Englandi.
Byrjar hann á móti Evrópumeisturum?
Nú verður fyrsti leikur Heimis á móti Englandi í Þjóðadeildinni í haust, mögulega nýkrýndum Evrópumeisturum. Þegar hann byrjaði með Jamaíka þá var fyrsti leikurinn á móti heimsmeisturum Argentínu.
Hvernig sem fer þá hefur írska landsliðið örugglega eignast mun fleiri stuðningsmenn á Íslandi og íslenskt knattspyrnufólk mun fylgjast vel með Heimi í enn einu eyjaævintýrinu sínu.
