Valur jafnaði þegar komið var fram yfir uppgefinn uppbótartíma og það voru Vllaznia-menn alls ekki sáttir við. Þegar leikmenn gengu af velli reyndu þeir að brjóta sér leið að leikmönnum Vals en öryggisgæsla stóð í vegi fyrir þeim.
Á meðfylgjandi myndskeiði sést þegar einn stuðningsmaður liðsins slær til öryggisvarðar og átök brjótast út í kjölfarið.
Undir lokin virtist hafa tekist að róa mannskapinn niður en samkvæmt heimildum Vísis brutust átökin aftur út fyrir utan leikvanginn.
Hótanir voru hafðar í garð stuðnings- og stjórnarmanna Vals. Lögregla var kölluð til og mætti á staðinn í stórri bifreið. Engar frekari upplýsingar liggja fyrir að svo stöddu.