Innlent

„Þeir voru hissa að þarna hafi ein­hver komið lifandi út“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Aðstæður í gær. 
Aðstæður í gær.  vísir

Betur fór en á horfðist þegar vörubíll hafnaði á hvolfi á vegakafla í Gatnabrún í Mýrdalshreppi í gær. Ökumannshús bílsins féll saman.

Greint var frá slysinu síðdegis í gær. Vörubíllinn hafði ekið út af veginum í neðstu beygjunni í Gatnabrún á Hringveginum. Umferð var í kjölfarið stöðvuð tímabundið.

Bíllinn gjöreyðilagðist en ökumaður bílsins komst lífs og slapp við meiriháttar meiðsl. Nokkuð sem Garðar Már Garðarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni hjá Suðurlandi segir hafa komið fyrstu viðbragðsaðilum á óvart.

„Þeir voru hissa að þarna hafi einhver komið lifandi úr bílnum. Bara mildi að ekki fór verr,“ segir Garðar í samtali við Vísi.

Hlúð var að ökumanninum, sem komst sjálfur úr bílnum, á vettvangi. „Hann var bara fluttur til frekari skoðunar með fullri meðvitund og ekki að sjá nein alvarleg meiðsl á honum,“ segir Garðar. 

Hann segir aðstæður á veginum ekki hafa verið óvenjulega hættulegar. Umrædd beygja sé hins vegar hættuleg, að sögn Garðars.

„Það eru krappar beygjur og gríðarlega brött brekka, en hvað olli þessu nákvæmlega er bara til rannsóknar.“

Hættulegur vegakafli.vísir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×