Fótbolti

Messi vonar að Di María kveðji með marki í úr­slita­leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Julian Alvarez fagna Angel Di Maria eftir að hann skoraði úrslitaleik HM í Katar í desember 2022.
Lionel Messi og Julian Alvarez fagna Angel Di Maria eftir að hann skoraði úrslitaleik HM í Katar í desember 2022. EPA-EFE/Tolga Bozoglu

Ángel Di María hefur skorað í öllum úrslitaleikjum sem Lionel Messi hefur unnið. Það þarf ekki að koma mikið á óvart að Messi vonist til þess að Di María skori í úrslitaleik Suðurameríkukeppninnar í kvöld. Það hefur boðað gott hingað til.

Argentína getur unnið þriðja stórmótið í röð og sextánda Suðurameríkutitilinn með sigri á Kólumbíu í úrslitaleiknum sem fer fram í Miami í Bandaríkjunum seint í kvöld.

Di María spilar síðasta landsleikinn á ferlinum í þessum úrslitaleik en hann og Messi hafa verið samstíga í argentínska landsliðinu í einn og hálfan áratug. Hinn 36 ára gamli Di María tilkynnti það í nóvember að þetta yrðu hans síðustu landsleikir.

Hann hefur spilað í landsliðinu í fimmtán ár og alls skorað 31 mark í 144 landsleikjum.

Messi talaði um það á blaðamannafundi fyrir leikinn að hann vonist til þess að Di María endi landsliðsferilinn með marki og gulli um hálsinn.

„Hver veit? Kannski mun hann skora enn eitt markið í úrslitaleik eins og hann gerði í öllum hinum sem hann hefur spilað. Það yrði stórkostlegt,“ sagði Messi. ESPN segir frá.

Messi hefur ekki unnið titil með landsliðinu nema þegar Di María skorar.

Di María skoraði sigurmarkið þegar þeir unnu Ólympíugullið saman í Peking 2008, hann skoraði sigurmarkið á móti Brasilíu í úrslitaleik Copa América 2021 sem og skoraði líka í úrslitaleiknum á móti Frökkum í úrslitaleik HM í Katar 2022.

„Við erum allt að segja honum að ef allt fer vel þá eru fleiri mikilvægir leikir fram undan. Engu að síður þá hefur Fideo [Di María] tekið ákvörðun og það mun ekkert breyta henni,“ sagði Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×