Fótbolti

Bellingham pirraður út í Southgate: „Breyttu ein­hverju, gerðu eitt­hvað“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gareth Southgate hughreystir Jude Bellingham eftir úrslitaleik EM.
Gareth Southgate hughreystir Jude Bellingham eftir úrslitaleik EM. getty/Andrew Milligan

Jude Bellingham ku hafa reiðst út í Gareth Southgate í úrslitaleik EM gegn Spáni. Hann vildi að landsliðsþjálfarinn gerði breytingar á liðinu í seinni hálfleik.

Bið Englendinga eftir stórum titli lengist enn en þeir töpuðu 2-1 fyrir Spánverjum í úrslitaleik EM á Ólympíuleikvanginum í Berlín á sunnudaginn.

Bellingham átti erfitt uppdráttar í leiknum og lét reiði sína bitna á Southgate. Mark Odgen, blaðamaður ESPN, greinir frá þessu. Samkvæmt honum vildi Bellingham að Southgate breytti einhverju hjá enska liðinu.

„Jude Bellingham var pirraður. Ég veit ekki hvort það sást í mynd. Rétt áður en [Harry] Kane var tekinn út af tapaði Bellingham sér þegar hann talaði við Gareth Southgate á hliðarlínunni, eins og hann væri að segja: Breyttu einhverju, gerðu eitthvað,“ sagði Odgen.

„Strax og Kane fór af velli og [Ollie] Watkins kom inn á og svo Cole Palmer spilaði England mikið betur.“

Palmer jafnaði fyrir England á 73. mínútu en Mikel Oyarzabal skoraði sigurmark Spánar fjórum mínútum fyrir leikslok.

Bellingham skoraði tvö mörk á Evrópumótinu, meðal annars stórkostlegt mark gegn Slóvakíu í sextán liða úrslitunum, en þótti ekki sýna sínar bestu hliðar í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×