Enski boltinn

Como viður­kennir að leik­maður liðsins hafi kallað Hwang Jackie Chan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmaður Como líkti Hwang Hee-chan við leikarann Jackie Chan.
Leikmaður Como líkti Hwang Hee-chan við leikarann Jackie Chan. vísir/getty

Ítalska félagið Como gefur ekki mikið fyrir ásakanir Wolves um að leikmaður liðsins, Hwang Hee-chan, hafi orðið fyrir kynþáttafordómum í æfingaleik liðanna í fyrradag.

Eftir leik liðanna á Marbella á Spáni á mánudaginn greindi Gary O'Neil, knattspyrnustjóri Wolves, frá því að Hwang hefði orðið fyrir kynþáttafordómum. Atvikið átti sér stað um miðbik seinni hálfleiks. Í kjölfarið var Daniel Podence, leikmaður Wolves, rekinn af velli fyrir kjaftshögg.

Como sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem félagið gerði lítið úr atvikinu. Ítalarnir sögðu Úlfana um að gera úlfalda úr mýflugu en viðurkenndu að leikmaður þeirra hefði kallað Hwang Jackie Chan. Kvikmyndastjarnan er fædd í Hong Kong en Hwang, sem er jafnan kallaður Channy, er frá Suður-Kóreu.

„Hunsaðu hann. Hann heldur að hann sé Jackie Chan,“ á varnarmaður Como að hafa sagt við samherja sinn samkvæmt yfirlýsingu félagsins.

O'Neil sagðist hafa spurt Hwang hvort hann vildi að leikurinn gegn Como yrði stöðvaður en hann neitaði því. Úlfarnir unnu leikinn, 1-0. Matt Doherty skoraði markið.

Como er nýliði ítölsku úrvalsdeildinni. Cesc Fábregas, fyrrverandi leikmaður Arsenal, Barcelona, Chelsea og spænska landsliðsins, er þjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×