Innlent

Grunaðir um kókaíninnflutning í gegnum kaffi­könnu og út­varp

Jón Þór Stefánsson skrifar
Efnin fundust í kaffikönnu og útvarpi.
Efnin fundust í kaffikönnu og útvarpi. Vísir/Getty

Þrír karlmenn hafa verið ákærðir fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot vegna innflutnings á kókaíni sem var falið annars vegar í kaffikönnu og hins vegar í útvarpstæki.

Ákæruliðirnir í málinu eru tveir talsins. Sá fyrri varðar kaffikönnuna sem innihélt 887 grömm af kókaíni, en styrkleiki efnanna var um sjötíu prósent. Kannan var flutt frá Frakklandi en fannst við eftirlit tollvarða þann 20. mars 2024 og í kjölfarið lagði lögreglan hald á efnin og rannsakaði þau.

Pakkanum var síðan komið fyrir í pósthúsinu á Dalvegi í Kópavogi. Tveir mannanna sem voru ákærðir í málinu eru sagðir hafa tekið á móti sendingunni og farið með hana ótilgreindan stað þar sem þriðji maðurinn, sem kom á bíl, tók við henni. Þriðji maðurinn fór með sendinguna að húsi í Furugrund þar sem lögreglan handtók hann.

Fram kemur að skráður móttakandi sendingarinnar sé fjórði einstaklingurinn sem er ekki ákærður í málinu.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness.Vísir/Vilhelm

Seinna málið varðaði innflutning á 815 grömmum af kókaíni, með 72 til 75 prósenta styrkleika, sem var falið í útvarpstæki sem var flutt til landsins frá Sviss. Tollgæslan fann efnin sama dag og hin efnin fundust. Líkt og í hinu málinu lagði lögreglan hald á efnin og kom síðan pakkanum fyrir í pósthúsi.

Einn mannanna þriggja var handtekinn á Háaleitisbraut í Reykjavík, en hann er sagður hafa verið á leið að sækja pakkann. Sendingin var skráð á nafn fimmta einstaklingsins sem er ekki ákærður í málinu.

Ákæruvaldið áætlar að efnin hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi. Þess er krafist að mennirnir verði dæmdir til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar, og þá er upptöku á rúmum 1,7 kílóum af kókaíni krafist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×