Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá eina af Boeing 777-þotum Atlanta við pílagrímaflugstöðina í Jedda í Sádí-Arabíu. Kaup á þessum vélum eru liður í endurkomu félagsins í farþegaflug eftir að það lagðist af í covid-heimsfaraldrinum.
„Þá dettur farþegaflugið alveg út. En svo fer þetta aftur í gang í hitteðfyrra. Þá byrjuðum við með þrjár vélar. Voru fjórar í fyrra, fimm núna, og ein á leiðinni. Þannig að við erum svona að bæta í aftur,” segir Einar Blandon, sviðsstjóri flugrekstrar Air Atlanta.

Eftir að smíði Boeing 747 og Airbus A380 var hætt er 777 stærsta flugvél heims í fjöldaframleiðslu. Við höfum orð á því við Rafn Þór Rafnsson, yfirflugvirkja Air Atlanta í Sadí-Arabíu, að hreyflarnir á henni séu hrikalegir.
„Þetta eru massívir hreyflar, já. Þetta eru stærstu hreyflarnir sem þú færð á markaðnum, hjá Boeing allavegana.”

-Og nú er Air Atlanta að reka þessar þotur. Það er dálítið magnað.
„Já, þetta er magnað að vera kominn með þessar nýju týpur, loksins,” segir yfirflugvirkinn.
Og þegar kemur að flota Atlanta eru engar ýkjur að tala um risaþotur hvað varðar fjölda farþegasæta.

„Núna erum við með tvær 747, sem eru að taka 460 farþega. Í fyrra bættum við við tveimur Boeing 777, sem eru að taka 490 farþega, rétt rúmlega, hvor um sig. Og svo erum við að bæta við núna tveimur Boeing 777-200, sem er hvor um sig um 400 farþega,” segir Einar Blandon.
Þreföldu sjöurnar eru núna orðnar fjórar í flota Air Atlanta. Tvær eru af 200 gerðinni, þeirri styttri, og tvær af 300 gerðinni, þeirri lengri. Þessi tegund skipar þann sess að vera stærsta tveggja hreyfla þota sögunnar.

-En er einhver munur fyrir flugvirkjana að vinna með svona vél, Boeing 777, heldur en 747?
„Þetta er náttúrlega miklu nýrri græja, sko, og betra að vinna við þetta. En manni finnst alltaf skemmtilegast að vinna á gömlu 747,” segir Rafn og hlær en viðurkennir þó að 777-þotan þýði mun minna viðhald.
Sviðsstjóri flugrekstrar eru ekki í nokkrum vafa hvað hann vill:
„Ég vil sjá fleiri. Ég vil sjá fleiri farþegavélar, sjö-sjö-sjöur, og helst í cargo líka,” segir Einar Blandon.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: