Fótbolti

Snýr heim úr at­vinnu­mennsku til að verja mark upp­eldis­fé­lagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jökull í búningi Exeter City á sínum tíma. Hann mun hins vegar að öllum líkindum spila í treyju Aftureldingar fyrr en síðar.
Jökull í búningi Exeter City á sínum tíma. Hann mun hins vegar að öllum líkindum spila í treyju Aftureldingar fyrr en síðar. Harry Trump/Getty Images

Markvörðurinn Jökull Andrésson er á leið hingað til lands eftir að hafa spilað erlendis frá árinu 2017. Hann mun ganga í raðir Aftureldingar og verja mark liðsins í Lengjudeild karla í knattspyrnu.

Það er mbl.is sem greinir frá þessu. Þar segir að hinn 22 ára gamli Jökull, sem á að baki einn A-landsleik og sjö leiki með yngri landsliðum Íslands, sé á leið í heimabæinn til að verja mark Aftureldingar eftir fjölda ára ytra.

Jökull hefur verið á mála hjá Reading sem mun leika í ensku C-deildinni á komandi leiktíð undanfarin sjö ár. Hann hefur hins vegar ekki náð að festa sig í sessi hjá aðalliði félagsins og verið ítrekað lánaður í neðri deildir enska boltans. Hefur markvörðurinn spilað fyrir lið á borð við Carlisle United, Stevenage, Exeter City og Morecambe.

Bróðir hans, Axel Óskar, samdi við KR fyrir yfirstandandi leiktíð hér á landi og var Jökull orðaður við stórveldið úr Vesturbænum. Það virðist hins vegar ekki sem KR-ingar hafi verið tilbúnir að sækja Jökul að þessu sinni.

Samkvæmt heimildum Vísis þá kaupir Afturelding markvörðinn af Reading en hann á ár eftir af samningi sínum í Englandi. Ekki er vitað hversu há upphæðin er.

Afturelding er í 9. sæti Lengjudeildar með 14 stig að loknum 12 umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×