Erlent

Blaða­maður sektaður fyrir að segja Meloni litla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Giorgia Meloni er forsætisráðherra Ítaliu en sat í stjórnarandstöðunni þegar blaðakonan tísti um hana.
Giorgia Meloni er forsætisráðherra Ítaliu en sat í stjórnarandstöðunni þegar blaðakonan tísti um hana. Getty/Corbis/Alessandra Benedetti

Ítalskur blaðamaður hefur verið dæmdur til að greiða Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, 5.000 evrur í miskabætur eftir að hafa gert grín að hæð hennar.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að tvö tíst blaðakonunnar Giuliu Cortese hefðu verið meiðandi og jafngilt líkamssmánun. 

Málið má rekja aftur til ársins 2021, þegar Meloni sat enn í stjórnarandstöðu. Cortese birti þá mynd af Meloni þar sem hún stóð fyrir framan bókahillu og hafði mynd af Benito Mussolini verið klippt inn á myndina.

Meloni tjáði sig um málið á Facebook, sagði það alvarlegt og að hún myndi grípa til lagalegra úrræða.

Seinna sama dag sagði Cortese að hún hefði eytt myndinni þegar hún áttaði sig á því að hún var fölsuð en sakaði Meloni á sama tíma um ófrægingarherferð gegn sér og að Facebook-færsla hennar sýndi að hún væri „lítil kona“.

„Þú hræðir mig ekki, Giorgia Meloni. Eftir allt þá ertu bara 1,2 m. Ég get ekki einu sinni séð þig,“ sagði Cortese svo í annarri færslu.

Hið rétta er að Meloni er 1,63 m á hæð.

Cortese hefur ekki gefið út hvort hún hyggst áfrýja dómnum. Hún sagði hins vegar á X að stjórnvöld ættu afar erfitt með tjáningar- og fjölmiðlafrelsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×