Innlent

Hand­tekinn eftir fimm metra fall til jarðar

Eiður Þór Árnason skrifar
Mennirnir voru fluttir á bráðamóttöku eftir slysin.
Mennirnir voru fluttir á bráðamóttöku eftir slysin. Vísir

Maður var fluttur á bráðamóttöku Landspítala í dag eftir vinnuslys þar sem hann féll úr fjögurra til fimm metra hæð til jarðar í miðborg Reykjavíkur. Við athugun kom í ljós að hann og samstarfsmaður hans væru á Íslandi í ólöglegri dvöl og höfðu þar að auki ekki tilskilin vinnuréttindi, að sögn lögreglu. Voru þeir báðir handteknir og mál þeirra tekið til skoðunar.

Greint er frá þessu í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en maðurinn er sagður hafa hlotið minniháttar meiðsli við fallið.

Einnig barst tilkynning um vinnuslys í Hafnarfirði þar sem maður er sagður hafa farið með fingur í sög með þeim afleiðingum að hann tók fingurinn næstum af. Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar, að sögn lögreglu.

Einnig komu þjófnaðarmál og minniháttar umferðarslys inn á borð lögreglu í dag. Þá hafði hún afskipti af ökumanni sem reyndist sviptur ökuréttindum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×