Erlent

Þrír drepnir í á­rás Ísraela í Jemen

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Mikill eldur kviknaði við höfnina í gær.
Mikill eldur kviknaði við höfnina í gær. epa

Þrír voru drepnir og um 80 manns særðust í loftárásum Ísraela á hafnarborgina Hodeida í Jemen í gær. Árásin er viðbragð við loftárás Húta á Tel Aviv í Ísrael þar sem einn lét lífið og tíu særðust.

Ísraelar höfðu heitið hefndum frá því að Hútum tókst að vinna bug á öflugu loftvarnarkerfi Ísraela fyrir helgi. Um er að ræða fyrstu árás Ísraela í Jemen frá því að Hútar hófu loft- og drónaárásir í Ísrael á síðasta ári. 

Samkvæmt upplýsingum Húta á samfélagsmiðlum var sprengjum Ísraelshers varpað á eldsneytisbirgðastöð og orkuver. Yahya Saree, talsmaður Húta, segir að Hútar munu svara árás Ísraela.

Ísraelskri herinn greindi sömuleiðis frá því í gær að herþotur þeirra hefðu hæft hernaðarskotmörk í Hodeidah í Jemen sem andsvar við „hundruðum árása sem gerðar hafa verið gegn Ísraelsríki á síðastliðnum mánuðum“. Netanjahú segir bryggju, sem skotið var á, hafa verið notaða í „hernaðartilgangi“.

Mikill eldsvoði kviknaði á höfninni í gærkvöldi eftir loftárásirnar.

Einn lét lífið í árásum Húta í Tel Aviv fyrir helgi. Fram að því hafði öflugt loftvarnarkerfi Ísraela komið í veg fyrir mannfall en í þetta sinn hæfðu eldflaugar íbúðablokk í Tel Aviv „vegna mannlegra mistaka“ eins og það var orðað í færslu ísraelska hersins á samfélagsmiðlum. 

Hútar eru hliðhollir Hamas-samtökunum á Gaza og hafa gert fjölda árása á flutningaskip á Rauðahafi frá því í nóvember. Þeir segjast beina árásum sínum að skipum tengdum Ísrael í því skyni að styðja Palestínumenn vegna árása Ísraels á Gasaströndinni.


Tengdar fréttir

Hútar hóta hefndum

Hútar hóta hefndaraðgerðum vegna sprengjuárásum sem gerðar voru af Bretlandi og Bandaríkjunum í gærnótt. Tugþúsundir komu saman í Sana höfuðborg landsins til að mótmæla og krefjast aðgerða.

Ráðast enn og aftur á Húta

Bandaríkin og Bretland gerðu loftárásir á Húta í Jemen í dag í nýjustu bylgju aðgerða til að fella vígahópa sem eru studdir af Írönum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×