Erlent

Umhverfisaðgerðarsinni og Íslandsóvinur hand­tekinn á Græn­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Paul Watson var lengi meðal hötuðustu manna á Íslandi.
Paul Watson var lengi meðal hötuðustu manna á Íslandi. vísir

Aðgerðarsinninn og hvalavinurinn Paul Watson hjá samtökunum Sea Shepherd var í morgun handtekinn í höfninni í Nuuk á Grænlandi en alþjóðleg handtökuskipun hafði verið gefið út á hendur honum vegna aðgerða hans í þágu umhverfisverndar.

„Lögreglan á Grænlandi var á vettvangi fyrr í dag við höfnina í Nuuk. Tilefni viðveru lögreglunnar var að stofnanda Captain Paul Watson-samtakanna, hinn bandarísk-kanadíska Paul Watson átti að handtaka þar sem alþjóðleg handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur honum,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Grænlandi sem Sermitsiaq skrifar eftir.

Paul Watson er 73 ára gamall og var einn stofnanda Grænfriðunga sem og Sea Shepherd. Samtökin síðarnefndu hafa í gegnum árin beitt sér með mjög áþreifanlegum hætti gegn hvalveiðum og til að mynda sökktu þau árið 1986 tveimur skipum úr hvalveiðiskipaflota Hvals hf. með því að skrúfa botnlokur þeirra ausar.

Þessum aðgerðum var gerð góð skil í öllum blöðum landsins og Watson hefur síðar verið meðal óvinsælustu manna Íslands. Hann hefur jafnvel verið kallaður helsti óvinur þjóðarinnar en óbeit landans á honum hefur ef til vill mildast með breyttum viðhorfum hans til hvalveiða við Íslandsstrendur.

„Paul Watson verður leiddur síðar í dag fyrir héraðsdómara í Sermersooq og falast verður eftir því að hann verði látinn sæta gæsluvarðhaldi þangað til að tekin hefur verið ákvörðun um hvort hann skuli framselja til Japans,“ hefur Sermitsiaq eftir lögreglunni.

Handtökuskipunin var gefin út af japönskum yfirvöldum vegna mótmælaaðgerða sem Watson hefur staðið fyrir þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×