Íslenski boltinn

Fundaði með mörgum en féllst á boð frænda síns og samdi við KR

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jakob var afar eftirsóttur biti á leikmannamarkaðnum í sumar.
Jakob var afar eftirsóttur biti á leikmannamarkaðnum í sumar. vísir / sigurjón

Einn eftirsóttasti leikmaður Íslands, hinn 17 ára gamli Jakob Gunnar Sigurðsson, var með samningsboð frá fjölmörgum liðum en féllst á hugmyndafræði frænda síns og samdi við KR.

Fundaði með nokkrum flottum klúbbum

Jakob hefur verið stórkostlegur í 2. deildinni í sumar með Völsungi og skorað 11 mörk í 12 leikjum það sem af er tímabili. Flest stórlið landsins voru á eftir honum en KR hreppti hnossið.

„Sko, ég fundaði náttúrulega með nokkrum flottum klúbbum, mér fannst bara KR vera með mest spennandi fundinn. Töluðu vel um það sem þeir vildu gera við mig, sögðust ætla að gera mig að betri leikmanni og ég bara treysti því.“

Frændi við stjórn

Hjá KR mun Jakob finna kunnuglegt andlit því þjálfari liðsins, Pálmi Rafn Pálmason, er frændi hans og spilaði nokkra leiki með Völsungi síðasta sumar.

„Jú, hann er frændi minn. Spilaði með honum og hann er algjör meistari. Mjög ánægður [að spila undir hans stjórn].“

Klárar tímabilið á láni og veit ekki hver þjálfar hann næst

Jakob mun klára tímabilið hjá Völsungi á láni og ætlar að halda áfram að bæta við þau 11 mörk sem þegar eru komin og hjálpa liðinu að komast upp í Lengjudeildina.

„Ég byrjaði á að setja markmið um átta mörk, skoraði náttúrulega bara eitt í fyrra, síðan henti ég í [markmiðið] tólf. Ég hef ekki skorað í einhvern mánuð núna en get vonandi farið að gera það aftur, klára tólf og setja svo markið í fimmtán.“

Á næsta tímabili verður hann svo leikmaður KR en óvíst er hvort Pálmi frændi hans haldi áfram að þjálfa liðið, en það truflar Jakob ekki neitt.

„Nei, það er þá bara meira challenge fyrir mig, heilla annan mann og ég hef trú á sjálfum mér að ég geti það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×