Íslenski boltinn

Sýður á Elmari: „Þetta er súrrealískt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Theódór Elmar Bjarnason í baráttunni við Andra Rafn Yeoman í kvöld.
Theódór Elmar Bjarnason í baráttunni við Andra Rafn Yeoman í kvöld. Vísir/HAG

Theódór Elmar Bjarnason, fyrirliði KR, var eðlilega óánægður eftir 4-2 tap liðsins fyrir Breiðabliki í Bestu deild karla á Kópavogsvelli í kvöld. Grafalvarleg staða er uppi í Vesturbæ.

„Leikurinn var mjög opinn, að vissu leyti vegna þess að þeir eru þreyttir. Þeir fá sína helvítis forystu með skítamörkum sem við gefum trekk í trekk. Þeir eru þreyttir og við þurfum að taka sénsa og þá verður opinn leikur. En þetta er alveg fáránlegt hvað við sleppum inn auðveldum mörkum,“ segir Theódór Elmar í samtali við Gunnlaug Jónsson í Kópavogi í kvöld.

„Ef við hefðum staðið með 0-0 eftir fyrri hálfleik þá hefðum við sagt að við höfum varist fínt og fínn hálfleikur hjá okkur. En í staðinn er 3-1 undir eftir galna frammistöðu varnarlega. Þetta er alveg ótrúlegt,“ segir Theódór Elmar.

Líkt og hann nefnir skoruðu Blikar þrjú mörk í fyrri hálfleiknum og þurftu lítið að hafa fyrir hverju þeirra. Að segja að varnarleikur KR hafi ekki verið til útflutnings er vægt til orða tekið.

Grafalvarleg staða er hins vegar uppi hjá Vesturbæjarveldinu. Liðið er þremur stigum frá botni deildarinnar og í fallbaráttu.

„Við erum í mjög erfiðri stöðu innan vallar og utan. Það eru bönn og meiðsli og menn að fara út í atvinnumennsku. Við erum bara í helvítis brasi,“ segir Theódór Elmar.

Hann segir menn hafa fundað um málið í vikunni og að KR-ingar geri sér sannarlega grein fyrir stöðunni sem liðið er í.

„Við gerum okkur fullkomnlega grein fyrir þessu. Við tókum fund í vikunni þar sem menn þurftu að gera sér grein fyrir stöðunni sem við erum í. Eins hundleiðinlegt og það er, þá erum við bara þarna. Það er ekkert að gera nema klóra í bakkann og halda áfram,“ segir Theódór Elmar og bætir við:

„Við sleppum inn auðveldum mörkum og færin sem við erum að gefa eru fáránleg. Það er ekkert á einstaklingana að setja, það er bara liðið sem heild. Það er ójafnvægi á þessu sem við þurfum að finna út úr þessu. Þetta er súrrealískt, en þetta er staðan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×