Lautier-Oungleye kom til liðsins á miðju tímabili í fyrra og var án efa einn af bestu leikmönnum deildarinnar.
Lautier-Oungleye var með 22,5 stig og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í deild og úrslitakeppni en hann hitti úr 44 prósent þriggja stiga skota sinna og var með 4,8 fráköst og 1,2 stolinn bolta í leik.
„Við lögðum mikla á áherslu á að fá Dwayne aftur til okkar enda sýndi hann og sannaði vel á síðasta tímabili hvers megnugur hann er. Þetta er frábær leikmaður og góður drengur og mun rífa áfram metnaðinn í klúbbnum okkar,” sagði Halldór Karlsson formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, í viðtali á heimasíðu félagsins.
Njarðvíkingar ætla sér því áfram stóra hluti en liðið er að flytja úr Ljónagryfjunni yifr í Stapagryfjuna sem verður tilbúin von bráðar.
Lautier-Oungleye spilar ekki bara í nýju húsi heldur einnig fyrir nýjan þjálfara því Rúnar Ingi Erlingsson tók við þjálfun liðsins af Benedikt Guðmundssyni í sumar.