Fótbolti

Víkingar og Blikar heppnari en Vals­menn og Stjörnu­menn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingur í leiknum á móti Shamrock Rovers á dögunum.
Víkingur í leiknum á móti Shamrock Rovers á dögunum. Vísir/Diego

Í dag kom í ljós hvaða lið bíða íslensku félaganna fjögurra takist þeim að komast áfram úr annarri umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta.

Íslensku liðin spila öll fyrri leik sinn á heimavelli á fimmtudaginn en svo tekur við útileikur viku síðar. Í boði er sæti í þriðju umferð keppninnar og þar með einu skrefi nær riðlakeppninni.

Það er hægt að segja að Víkingar og Blikar hafi verið heppnari en Valsmenn og Stjörnumenn í þessum drætti í höfuðstöðvum UEFA í dag. Það má nálgast allan dráttinn hér.

Takist Víkingum að slá út albönsku meistarana í Egnatia þá mæta þeir annað hvort Virtus A.C. 1964 frá San Marínó eða FC Flora Tallinn frá Eistlandi.

Takist Blikum að slá út Drita frá Kósóvó þá mæta þeir annað hvort FK Auda frá Lettlandi eða Cliftonville FC frá Norður Írlandi.

Takist Stjörnumönnum að slá út Paide Linnameeskond frá Eistlandi á mæta þeir annað hvort F91 Diddeleng frá Lúxemborg eða BK Häcken frá Svíþjóð.

Takist Valsmönnum að slá út skoska liðið St. Mirren þá mæta þeir annað hvort Go Ahead Eagles frá Hollandi eða SK Brann frá Noregi.

Fyrri leikir þriðju umferðarinnar fara fram fimmtudagana 8. og 15. ágúst. Víkingur og Valur myndu spila fyrri leikinn á heimavelli en Stjarnan og Breiðablik myndu spila fyrri leikinn sinn á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×