Fótbolti

Orri Steinn byrjaði á marki í Ís­lendinga­slagnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn fagnar marki sínu.
Orri Steinn fagnar marki sínu. FCK

Lyngby tók á móti FC Kaupmannahöfn í 1. umferð dönsku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Alls voru þrír Íslendingar í byrjunarliðum liðanna og Orri Steinn Óskarsson gerði sér lítið fyrir og skoraði fyrsta mark leiksins í 2-0 sigri gestanna.

Orri Steinn hóf leikinn sem fremsti maður gestanna á meðan markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson sat á varamannabekknum. Í liði heimamanna var Kolbeinn Birgir Finnsson í stöðu vinstri bakvarðar og Sævar Atli Magnússon einn af tveimur framherjum.

Það tók Orra Stein aðeins sjö mínútur að koma gestunum yfir eftir undirbúning hægri bakvarðarins Rodrigo Huescas, sá er tvítugur og gekk í raðir FCK í sumar. Þegar hálftími var liðinn tvöfaldaði hinn norski Mohamed Elyounoussi forystuna eftir stoðsendingu hins sænska Jordan Larsson.

Orri Steinn kom boltanum í netið á nýjan leik þegar 40 mínútur voru liðnar en markið var dæmt af eftir að myndbandsdómari leiksins hafði skoðað það gaumgæfilega, staðan því enn 0-2 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Sævar Atli var tekinn af velli á 68. mínútu og Orri Steinn á 81. en ekkert var skorað í síðari hálfleik og FCK byrjar tímabilið því á góðum 2-0 sigri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×