Fótbolti

Orri fær mikið lof eftir frá­bæra byrjun

Aron Guðmundsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson í leik með FC Kaupmannahöfn
Orri Steinn Óskarsson í leik með FC Kaupmannahöfn Getty/Lars Ronbog

Orri Steinn Óskars­son, fram­herji FC Kaupmannahafnar, fær mikið lof frá sér­fræðingum um dönsku úr­vals­deildina eftir mjög svo góða byrjun á tíma­bilinu í gær­kvöldi. Orri skoraði eitt mark í 2-0 sigri FC Kaup­manna­hafnar á Lyng­by í fyrstu um­ferð deildarinnar. Mörkin hefðu hæglega geta verið fleiri en frammi­staðan sýnir það og sannar af hverju stór fé­lög í Evrópu hafa verið á höttunum á eftir Ís­lendingnum.

„Þegar að þú færð fyrsta tæki­færið til þess að skora mark svona snemma, þá er það eina sem FC Kaup­manna­höfn þarf frá þér að þú skorir. Orri gerði það. Hann er ní­tján ára gamall og það er út af þessu sem mörg fé­lög hafa á­huga á honum,“ sagði David Niel­sen, sér­fræðingur TV 2 um frammistöðu Orra í gær.

Orri Steinn undirritaði nýjan samning við Kaupmannahafnarliðið á dögunumFCK

Ljóst er að mikill á­hugi hefur verið á kröftum Orra milli tíma­bila, meðal annars úr spænsku úrvalsdeildinni, en hann skrifaði undir nýjan samning við FC Kaup­manna­höfn fyrir ekki svo löngu síðan til ársins 2028. Er það til marks um trúnna sem for­ráða­menn fé­lagsins hafa á Ís­lendingnum.

„Hann er mjög svo heil­steyptur leik­maður sem hreyfir sig af mikilli greind inn í víta­teignum,“ bætti Niel­sen við í út­sendingu TV 2 frá leik gær­kvöldsins. „Þegar að þú er með leik­mann eins og hann. Sem getur komið djúpt niður á völlinn til þess að hjálpa liðs­fé­lögunum og sem tekið hlaupið inn fyrir og ógnað, sem og klárað færin. Þá ertu vel settir. Það er út af þessu sem for­ráða­menn FC Kaup­manna­hafnar hafa lagt mikið á sig til þess að halda honum.“

Orri Steinn fagnar marki sínu í gærFCK

Orri hefði geta skorað fleiri mörk í leik gær­kvöldsins en hann hefur sett stefnuna á að vera marka­hæsti leik­maður dönsku úr­vals­deildarinnar á yfir­standandi tíma­bili.

„Auð­vitað vill maður opna marka­reikninginn eins fljótt og auðið er,“ sagði Orri í við­tali eftir leik. „Ég tel mig hafa verið mjög hættu­legan fyrir and­stæðinginn í leiknum. Þetta var góð byrjun. Nú þarf bara að byggja ofan á þetta.“

Væntingarnar til Ís­lendingsins unga eru miklar og hefur verið haft á orði að hann geti orðið sá leik­maður sem brýtur marka­metið í dönsku úr­vals­deildinni. Metið stendur í 29 mörkum og er eign fyrr­verandi leik­manns FC Kaup­manna­hafnar Robert Skov.

Orri var spurður út í mark­mið sitt varðandi marka­skorun á tíma­bilinu eftir leik í gær.

„Ég verð að vera marka­hæstur. Ein­hverjir hafa sagt mér að miða að því að bæta marka­met Skov Ol­sen en það gæti orðið erfitt. Eigum við að stefna á fimm­tán mörk? Tuttugu mörk? Vonandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×