Erlent

Stjórn­völd í Kína hyggjast hækka eftirlaunaaldurinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eftirlaunaaldurinn er mismunandi hjá konum og körlum.
Eftirlaunaaldurinn er mismunandi hjá konum og körlum. Getty

Stjórnvöld í Kína hyggjast hækka eftirlaunaaldurinn á næstu fimm árum til að bregðast við öldrun þjóðarinnar og létta á þrýstingi á eftirlaunakerfið. 

Eftirlaunaldurinn er óvíða lægri en í Kína, þar sem hann er 60 ára fyrir karla, 55 ára fyrir konur í skrifstofustörfum og 50 fyrir verkakonur.

Lífslíkur hafa aukist verulega á síðustu áratugum en meðalævilengd Kínverja var aðeins 36 ár þegar Alþýðulýðveldið Kína var stofnað árið 1949. Í dag er hún 78 ár.

Hækkun eftirlaunaaldursins var samþykkt á þjóðþingi Kommúnistaflokksins í síðustu viku, sem haldið er á fimm ára fresti. Þess var ekki getið í samþykkt þingsins hversu mikil hækkunin yrði en gefið til kynna að hún myndi eiga sér stað í áföngum.

Ef horft er til skýrslu frá 2023 um þróun ellilífeyrisréttinda í Kína má ætla að endanleg niðurstaða verði 65 ár.

Greint hefur verið frá því að sérfræðingar áætluðu að eftirlaunasjóðir yrðu uppurnir árið 2035, að óbreyttu. Sú spá er frá 2019, áður en Kína var fyrir efnahagslegu höggi vegna Covid-19.

Samkvæmt BBC hafa sumir lýst yfir efasemdum með fyrirætlanir stjórnvalda og meðal annars bent á að þeir sem þurfi mest á því að halda að fara á eftirlaun séu að þrotum komnir eftir erfiða starfsævi en þeir sem hafi haft það náðugt í vinnunni muni ekki vilja hætta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×