Fótbolti

Heima­konur byrja leikana á sigri

Siggeir Ævarsson skrifar
Marie-Antoinette Katoto og Maëlle Lakrar fagna marki þeirrar fyrrnefndu á upphafsmínútum leiksins
Marie-Antoinette Katoto og Maëlle Lakrar fagna marki þeirrar fyrrnefndu á upphafsmínútum leiksins vísir/Getty

Frakkland vann góðan 3-2 sigur á Kólumbíu í A-riðli Ólympíuleikanna í kvöld en heimakonur byrjuðu leikinn af miklum krafti og gerðu nánast út um hann í fyrri hálfleik en staðan var 3-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Markavélin Marie-Antoinette Katoto skoraði fyrsta markið strax á 6. mínútu og tólf mínútum síðar tvöfaldaði Kenza Dali svo forskotið.

Katoto var svo aftur á ferðinni á 42. mínútu og úrslitin svo gott sem ráðin. Kólumbía sótti þó í sig veðrið í seinni hálfleik og minnkaði muninn í 3-2 en á 82. mínútu fékk Mayra Ramírez að líta rauða spjaldið eftir yfirferð í VAR og þar með virtist allur vindur úr liðinu.

Þá unnu Bandaríkin sannfærandi og þægilegan 3-0 sigur á Sambíu. Bandaríkjakonur komust í 3-0 strax á 25. mínútu en Mallory Swanson skoraði tvö mörk með aðeins 66 sekúnda millibili, sem er stysti tími á milli marka í sögu bandaríska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×