Andrea hefur tekið þátt í alls konar hlaupum út um allt land í sumar og sum þeirra hafa líka verið erlendis. Dugnaðurinn og sigurgangan er engu öðru lík.
Hvort sem það eru hlaup á braut, götuhlaup eða hlaup upp um fjöll og firnindi þá virðist Andrea alltaf vera á heimavelli.
Ótrúlegir 98 dagar
Það var því vel við hæfi að taka saman öll þessi hlaup sem Andrea hefur unnið.

Andrea vann alls fimmtán hlaup af öllum stærðum og gerðum frá 4. apríl til 13. júlí og varð að auki í sjötta sæti á Evrópumeistaramótinu í utanvegahlaupum í Frakklandi í júníbyrjun.
Þessi fimmtán hlaup skiptast þannig: Átta utanvegahlaup, fjögur brautarhlaup og þrjú götuhlaup.
Besta dæmi um magnaða sigurgöngu Andreu er þegar hún varð Íslandsmeistari í fimm hlaupagreinum á aðeins sex dögum um síðustu mánaðamót.
Fimm Íslandsmeistaratitlar á sex dögum
Andrea varð Íslandsmeistari í 3000 metra hindrunarhlaup á föstudegi, Íslandsmeistari í 1500 metra hlaupi á laugardegi, Íslandsmeistari í 5000 metra hlaupi á sunnudegi, Íslandsmeistari í 10 kílómetra götuhlaupi á þriðjudegi og loks Íslandsmeistari í hálfu maraþoni á fimmtudegi.

Oftar er ekki er Andrea að bursta þessi hlaup og að bæta met, bæði persónuleg met sem og mótsmet.
Byrjaði allt í Króatíu
Allt byrjaði þetta á Istria skaganum í Króatíu þegar hún vann 42 kílómetra utanvegahlaupið Istria by UTMB.
Næsti sigur kom í Íslandsmeistaramótinu í 5 kílómetra götuhlaupi í lok apríl en það var fyrsti af sex Íslandsmeistaratitlum Andreu í sumar.
Af þessum fimmtán hlaupum þá hefur Andrea unnið þrettán þeirra á Íslandi en tvö erlendis. Af þessum hlaupum hafa fjögur verið hlaup upp á 5 kílómetra eða minna en ellefu voru lengri hlaup.
Laugavegurinn lengstur
Lengsta hlaupið var Evrópumeistaramótið í utanvegahlaupum í Frakklandi sem var 58 kílómetrar en lengsta hlaupið sem Andrea vann var Laugavegurinn sem var 53 kílómetra utanvegahlaup.

Andrea átti einnig magnað ár í fyrra en hún endaði þá í fjórða sætinu í kosningunni um Íþróttamann ársins.
Hér fyrir neðan má listann yfir öll þessi hlaup sem Andrea hefur unnið.
- Sigurganga Andreu Kolbeinsdóttur á 98 dögum:
- 6. apríl - Istria by UTMB, 42km utanvegahlaup
- 25. apríl - Íslandsmeistari í 5km götuhlaupi
- 4. maí - 20km Puffin í Vestmannaeyjum, utanvegahlaup
- 18 .maí - 28km Akrfafjall Ultra, utanvegahlaup
- 20. maí - 17km Hvítasunnuhlaupið, utanvegahlaup
- 25. maí - 20km Mýrdalshlaupið, utanvegahlaup
- 1. júní - 58km Evrópumeistaramótið í utanvegahlaupum í Frakklandi (6. sæti)
- 15. júní - Mt. Esja Ultra Steinninn, utanvegahlaup
- 22. júní - 5000m hlaup á Smáþjóðameistaramótinu á Gibraltar
- 28. júní - Íslandsmeistari í 3000m hindrunarhlaupi
- 29. júní - Íslandsmeistari í 1500m
- 30. júní - Íslandsmeistari í 5000m
- 2. júlí - Íslandsmeistari í 10km, götuhlaup
- 4. júlí - Íslandsmeistari í hálfu maraþoni
- 6. júlí - 50km Dyrfjallahlaupið, utanvegahlaup
- 13. júlí - 53km Laugavegurinn, utanvegahlaup