Fótbolti

Trinity Rodman sýndi trixið sitt á stóra sviðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Trinity Rodman tekur Trin Spin. Skömmu síðar lá boltinn í netinu.
Trinity Rodman tekur Trin Spin. Skömmu síðar lá boltinn í netinu. getty/Brad Smith

Trinity Rodman var á skotskónum þegar Bandaríkin sigruðu Sambíu, 3-0, í fótboltakeppni Ólympíuleikanna í gær. Markið kom eftir frábæra gabbhreyfingu sem er nefnd eftir henni.

Rodman lék sinn fyrsta leik á Ólympíuleikunum í gær en ekki var að sjá að hún væri stressuð, allra síst á 17. mínútu þegar hún kom bandaríska liðinu yfir.

Rodman fékk þá boltann frá Lindsey Horan, sneri frábærlega og setti boltann svo framhjá markverði Sambíu, Ngambo Musole. Gabbhreyfingin sem Rodman tók er nefnd eftir henni; Trin Spin.

„Þetta var bara eðlisávísunin því ég hef eiginlega ekkert æft þetta. En þetta virkaði fullkomlega,“ sagði Rodman eftir leikinn í gær.

„Ég vissi að ef ég tæki snertingu fyrir framan mig myndi ég komast í átt að markinu. Ég reyndi að koma varnarmanninum úr jafnvægi sem heppnaðist þannig að ég er ánægð.“

Mallory Swanson bætti tveimur mörkum við með 66 sekúndna millibili áður en Pauline Zulu, leikmaður Sambíu, var rekin af velli á 34. mínútu. Sigur Bandaríkjanna var afar öruggur og sannfærandi en þetta var fyrsti keppnisleikur liðsins undir stjórn Emmu Hayes.

Bandaríkin eru með þrjú stig í B-riðli líkt og Þýskaland sem vann 3-0 sigur á Ástralíu í gær. Á sunnudaginn mætast Bandaríkjamenn og Þjóðverjar.

Rodman, sem er dóttir körfuboltagoðsins sérlundaða Dennis Rodman, hefur leikið 41 landsleik og skorað átta mörk. Hún leikur með Washington Spirit í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×