Innlent

Sala á fíkni­efnum fari fram fyrir opnum tjöldum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Stöð 2/Arnar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt hald á umtalsvert magn af fíkniefnum og teygir málið anga sína víða. Yfirlögregluþjónn segir talsvert magn fíkniefna í umferð og sala þeirra fari fram fyrir opnum tjöldum á samfélagsmiðlum. Fimm manns eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmdi húsleit á mánudag og þriðjudag þar sem hald var lagt á fíkniefnin auk um þriggja milljóna króna í reiðufé. Grímur Grímsson er yfirlögregluþjónn rannsóknarsviðs.

„Það eru fimm í vikulöngu gæsluvarðhaldi en við handtókum fleiri í tengslum við málið. Það var lagt hald á um sextán kíló af  kannabisefnum auk annarra efna eins amfetamín og töflur. Það að þessi fjöldi sé settur í gæsluvarðhald sýnir að við lítum málið alvarlegum augum,“ segir Grímur.

Teygi anga sína víðar

Hann segir að málið snúi að smásölumarkaði með fíkniefni en sé að öllum líkindum víðfeðmara. 

„Oft er það þannig þegar við hefjum svona rannsóknir, þá teygir málið sig víðar. Það koma upp fleiri mál í kjölfarið.  Þannig að mögulega getum við horft til þess að um sé að ræða skipulagða brotastarfsemi eða að skipulagðir hópar standi að málinu,“ segir Grímur. 

Salan á samfélagsmiðlum

Grímur segir að sala fíkniefnanna hafi farið fram fyrir opnum tjöldum. Hann útilokar ekki að fleiri mál komi upp á næstunni.

Undanfarin ár hefur sala fíkniefna farið fram fyrir tiltölulega opnum tjöldum á samfélagsmiðlum. Sölufólk virðist ekki hafa haft miklar áhyggjur af því að vera tekið við slíka iðju. Það er líka töluvert magn í umferð í smásölu. Við erum að taka á þessu og fylgjumst grannt með.

Aðspurður um hvort sé merki um að viðhorf í samfélaginu til fíkniefnaneyslu sé að breytast svarar Grímur.

„Það má segja það að fíkniefnaneysla er meira normalíseruð í samfélaginu nú en fyrir einhverjum tugum ára. En þessi efni eru ólögleg og okkur ber að hafa eftirlit með því,“ segir Grímur að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×